Helvíti, Arna varð að fara til Nasaret til að þetta poppaði uppí hausinn á mér. Áttum um síðustu helgi ágætis spjall um dæmisögur við Tinnu og Árna, skiptumst á sögum og svona. Mjög gaman. Reyndar stæðu kannski einhverjir höllum fæti undan mér, ég grúfði mig nefnilega í mörg ár oní bókina Díógenes í tunnunni. Og geri enn.
Það er bók sem ætti að vera skyldulesning í barnaskóla. Snillingurinn sem tók hana saman, einhver, klippir til og auðveldar allskonar þjóðsögur, td gríska goðafræði ma sögurnar um Narcissus og Ekkó, Trjóju-stríðið og Akkiles. Svo auðvitað Díógenes, líka um Napóleon og Newton svo nokkur dæmi séu nefnd.
Sá snefill af visku sem ég geymi kemur í raun úr þessari stórgóðu bók. Og svo litlu bókinni um Nasreddin, sem af óskiljanlegum ástæðum er ekki meðlimur í fyrrnefndri bók. Allavegan gat ég ekki munað hvað hann Nasreddin hét, í bjórkvöldinu! Voru ekki brúðuþættir um hann í sjónvarpinu í gamla daga?
Vá, það þarf að gefa þessa Díógenes bók út aftur. Það er góður kafli í henni um Thomas Moore, þann sem skrifaði um Útópíu, ég held það gerði börnum bara gott að lesa það eða pæla í því þegar Díógenes fleygir frá sér skálinni og drekkur úr lófa sér! Á þessum tímum þegar börn eru á hverjum föstudegi að drukkna úr innkaupapokum í aftursætinu á leiðinni heim úr kringlunni, bara að þau fengju annað sjónarhorn á þetta. Að ég tali nú ekki um úr bók, engin Stundin Okkar getur talað jafn mikið við mann og bók sem þú lest í ró og næði. Vona bara að þú skiljir hvað ég á við.
Þegar ég spái í það þá eru allar sögurnar með mjög góðan móral: Mídas konungur, sem kemur reyndar tvisvar fyrir (sá sem þekkir hina fær verðlaun!) maður skilur hann svo, grátandi gulltárum og glampandi að innan! Eða Narcissus, maður vorkennir honum bara, dæmdum til að elska sjálfan sig! Ekki að þessi lestur hafi eitthvað breytt mér rosalega, en amk þegar ég er að glápa á sjálf mitt útí bláinn, þá sé ég móta fyrir Narcissusi, alas ég veit af því. Sem er meira en manni gæti stundum dottið í hug um annað fólk.
Vó, ég hafði hugsað mér bulla um heilagan anda og Nasaret, það bíður betri tíma. En að lokum: I turned on the gas, but soon realized I hadn't settled my bill, so they cut off my supply. No matter what I try, it seems I'm too young die... Life goes on, and on and on.
Ray Davies