Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

miðvikudagur, desember 29, 2004

 

Á bylgjum ástarinnar

Arna fékk þessa frábæru ljóðabók í jólagjöf, Á bylgjum ástarinnar - Ljóðabók um ástina, eftir Sigurgeir S. Gunnarsson. Hún virðist vera gefin út af höfundi sjálfum, ártal er 1991. Hún er harðspjalda, 64 blaðsíður, og prýdd afar ósmekklegri ljósmynd af sólsetri. Káputextinn er bráðfyndinn, einhver "ég", líklegast Sigurgeir sjálfur, segir bókina vera þá "fyrst[u] sinnar tegundar þar sem höfundur yrkir um ástina af mikilli innlifun þar sem hann lýsir reynslu sinni í ljóðum." Það kemur fram að höfundur hafi alist upp í hinum "illræmdu" Kömpum, og sé fæddur '53, nokkrum árum eftir stríðið "sem hefur líklega haft áhrif á uppeldið þó ég sé ekki að fullyrða eitt eða neitt." Svo kemur þetta frábæra one-two punch (ja, þetta er meira einsog geltandi vélbyssa, og svo lokahvellur í hvellettustíl) og lýkur kynningunni þá:

"Hann lauk ekki unglingaprófi heldur hellti sér út í mikla vinnu aðeins 14 ára gamall til að drekkja sorgum sínum því sagt er að hann hafi verið yfir sig ástfanginn af stúlku sem sveik hann og yfirgaf síðan. Því fór sem fór."

Bókin er í tveim þáttum, sá fyrri ljóð eftir höfundinn, en sá seinni eru ljóð "send og ort til höfundar." Við Arna, höfum nú ekki mikla trú á því, sjáum handbragð Sigurgeirs í þeim ljóðum.

Uppáhalds ljóðið okkar Örnu er í seinni hlutanum, ég bara verð að birta það, ég má ekki hugsa til þess að það falli í gleymsku:
Hulni maðurinn

Hver ert þú hinn hulni maður
sem gægist hér hjá mér,
það er allt á huldu
þetta hjá þér.
Þetta ljóð hefði nú átt að vera inngangsljóðið, því gúgl og allar aðrar leiðir hafa ekki skilað neinum árangri í leit að upplýsingum um skáldið Sigurgeir, hann er hinn hulni maður.

Og það hefur hún Dedda strax komist á raun um, og skilið þetta ljóð eftir á rúmstokknum hjá Sigurgeir, krassað aftan á nótu frá Nettó í Mjóddinni, og lagst útí haust morguninn, þunn og vaggandi yfir í fjærsta stigaganginn í síðustu blokkinni af þeim öllum.

Einar Már sagði að blokkirnar væru einsog Kinks lög, Dedda er Something Else.

Dedda er samt ekkert skrifuð fyrir Hulna manninum, það er enginn skrifaður - eða skrifuð, Sigurgeir lætur einsog það séu kvenkyns aðdáendur sem yrkji til hans - fyrir ljóðum seinni hlutans. Ég bjó til Deddu, og hún er ekki hrein mey, Sigurgeir hefur mikinn áhuga þeim. Sbr. þessa opnu:
Hrein ást

Hver er hin hreina ást
ég er við hana að kljást,
því ástfangin ég er.
Viltu vera með mér
þá skal ég segja þér
hvað hrein mín ást er.

Ég hreinn sveinn er,
sveindóm "minn" ég þér
fel, því þú ert mér
allt "ég er" sem allsber
gagnvart þér, ó þú
hreina mey "hver ert þú?
Og:

Hrein mey

Hvar er hin hreina mey
sem vildi vera hreinum
sveini kær.
Ég verð alveg ær
þú ert mér svo kær.

Liggur hún einhvers staðar
í leyni, eða er hún á sveimi.
Flestir hreinir sveinar
vilja hreinar meyjar
en vilja þær hreina sveina.
Það veit ég ei.
Sigurgeir verður oft, og mikið, ær. Það má segja það sé höfundareinkenni, eða heilkenni - sem yrði þá að öllum líkindum kennt við Þorstein Eggertsson. Annað einkenni er, öfugt við Þorstein, sem hefur rímið svona á hreinu, þá virðist Sigurgeir ríma eftir hentugleik. Það er líka gaman að sjá hugrenningartengslin, einsog í niðurlagi Ástarhita: "[...] því ég þrái þig/ svo heitt að ég/ gæti dáið vegna þín./ En hvað ég dái þig."

Annað, sem gaman er að, er skiptingin á milli lína. Hún gerir það að verkum að það er ansi erfitt að lesa þau upphátt, en eykur á skemmtigildið um leið.

Mig langar að prenta eitt ljóð í viðbót, en það er úr svo mörgum góðum að velja, að ég er að melda með mér, að skella hér inn, einsog einu og einu ljóði úr bókinni við og við.
Jólakoss

Kisa segir mjá, mjá.
En ég segi gleðileg
jól og farsælt komandi
ár með þökk fyrir góð
kynni. Það var ánægjulegt
að fá tækifæri til að
kynnast þér og ég
þakka þér kossinn
sem þú gafst mér
þegar ég kvaddi þig
á flugvellinum
í Reykjavík.
Hann brennur enn á vörum
mér, því hann sérstakur
var. Og koss af vörum
þínum var mér svo kær,
því ég þrái þig.
Það er við hæfi að enda þetta korn með því að líta enn í káputextann.

"[...]fyrsta bók sem hann sendir frá sér. Og er hér því nýtt nafn í skáldheiminum. Ég hef trú á að hann lofi góðu í framtíðinni. Ég hef heyrt sagt að hann sé með bók í bígerð á næsta flóði, um ástarmál sín."

Ég bíð spenntur.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]