Þögn í sjónvarpinu, hinstu andvörpin gleymd einsog andlit stjarnanna. Þögn yfir tilsvörunum, þögn í hláturkórnum. Sjónvarpstækið er svarti kassinn - black box - leiðarskrá okkar hjónanna er skráð í hana, öll rifrildin, brotlendingarnar þegar ég gaf eftir, dauðsföllin og hjartaáfallið mitt er greypt í fjarstýringuna sem fylgdi mér í sjúkrabílinn. Lamað augnaráð mitt leit hana á kommóðunni, svarta í algleymi stofunnar sem var hvít einsog ungdómur minn á klósettunum á Sirkus, whatever. Lungun sem hjúkrunarkonurnar gláptu á, svört. Nærjurnar þeirra sem ég glápti á, lamaður með hausinn útá hlið, svartar. Sjónvarpið sem ég starði á, svart. Tónlistin, svört. Hárið á asísku stelpunum sem þrifu kringum mig, svart. Svitadroparnir sem runnu eftir síðunni þegar krakkarnir og þau komu í heimsókn, og ég hafði verið færður uppí rúminu, svartir og kaldir. Konfektið var svart. Lakkrísinn. Sígaretturnar - pólskt smygl frá vinnufélaga - svört þrá sem leið upp frá andyrinu neðan við gluggan á stofunni minni. Tungan í konunni minni, sem talaði ekki við mig því ég gat ekki talað, var svört. Augun í stelpunni minni voru svört, og strákurinn minn vildi vera svartur.
2046. Bjóst einhver við því að við lifðum, værum á lífi? Hvar var það, þetta mest óumflýjanlega ár, þegar við gommuðum í okkur ólyfjan, kaffinu, sígarettunum, ellunum og spíttinu? Þau gefa mér THC töflur núna svo ég éti eitthvað! Sjáiði ekki hvernig ég lít út? Hef ég ekki munchað nóg, bólu freðinn, tvöhundruðþúsund tilboð and counting? Feitur, ég var akfeitur. Ég hafði oft hugsað að ég vildi bara fá að fjara út, losna undan þessum álögum, spretta þessum ólaga saum á lífinu.
En, snúrur og rör, héldu í mér lífinu. Þó ég væri lamaður um allan líkaman, fann ég einsog það væri menthol í æðum mínum, menthol sem utanáliggjandi púls sló inní mig.
"2045 - it was a - very good - year," sagði ég við Lin Tong eða eitthvað. Lítil, dökk Víetnömsk stelpan fraus í sporunum, kroppurinn einsog á fimleikastjörnu, þar sem samfellan slaknaði á göngunni lafði teygjan, og þunnar bleikar línur sáust í hörundinu. Litla skinnið hafði skotið upp kryppu einsog köttur, þykkar varirnar kipruðust og smá hár til hliðar við munnvikin bærðust lítið eitt. "I got - a raise, Jennifer Garner" - hjartað í brjósti mér slóst utan í bringuna, fast, fast, einhverskonar píptæki hjá mér flautaði samfellt - "finally got - Oscar. My girl - marry."
Herbergið fylltist fólki of fínu til að vera í svuntu, einn karl, sex konur. "Hvað sagði hann," öskraði læknirinn á stelpuna, en samt meira oní eyrað á mér, því hann hafði hent sér á rúmið, tróð einhverskonar löngu tæki uppí mig. Ein hjúkrunarkonan gaf henni stuð úr litlu tæki á hálsinn, horfði ógnandi á hana einsog hún væri þræll. Læknirinn endurtók öskrin, aftur og aftur, meðan hann barði mig og barði á brjóstið.
"Ég veit það ekki, ég skildi hann ekki."
Fleira fólk ruddist inn, krakkar í hvítum búningum, sem störðu forvitin og hvísluðust á um ástand mitt, það var greinilegt að einhver vissu hvað var í gangi - höfðu lesið skýrslurnar mínar áður. Kraftaverk? Sum voru hissa á svip. Nokkur krakkanna voru svört einsog strákurinn minn. Lin minni var hent út, hún stóð augnablik í gættinni, mér fannst hún horfa beiðandi eða afsakandi til mín, ég vona að ég hafi getað brosað til hennar. Það var aftur ýtt við henni, búlduleit íslensk hjúkrunarkona hrinti henni út á ganginn og horfði eftir henni ill á svip ásamt annari tröllkonulegri, alhvítri konu. Það var einsog Lin ógnaði þeim, hún var of exótísk og falleg. Mér fannst leiðinlegt að hafa fallið í þessa gryfju, og haldið að hún skildi ekki íslensku. Og kannski var verra að hafa haldið að hún vildi mig, bara því hún var asísk. En hún var íslensk.
Læknirinn hélt áfram að berja mig, halda í mér lífinu. Ég var farinn að finna til sársauka, nístings verkjar um alla þá hlið líkamans sem sneri útí lífið, lífið sem var loks að kvikna aftur innra með mér. Krumpuð sængin lá líktog foss frá mér og niður á gólf. Líf mitt, með öllum sínum töpum og sigrum, hafði svo mánuðum skipti, runnið sitt skeið aftur og aftur fyrir augum mínum, endalokin breytileg frá degi til dags. Nú var lífið að koma inn. Þessi dópaða veröld í umönnuninni, hafði ekki breytt mér, ég þráði enn að eiga líf. Í þessu hringleikahúsi var ég trúður, æfing í lífi eða tilveru, en samt, kannski kraftaverk sem framtíðin gæti byggt á og breytt sér. Í fyrsta sinn síðan um kvöldið, þegar ég hrifsaði mig frá sjálfum mér, var nú lífinu troðið í mig.
Lærin brunnu af fullri þyngd læknisins, ungs manns í góðum bata sem nemarnir litu upp til.
Eftir að hafa notið tilvistarinnar í það sem mér fannst vera eilífð, og taugaboða sem ég vissi ekki að ég ætti eftir, dvalið við hrynjanda högganna, safnaði ég kröftum. Þurrar og sprungnar varir mínar geifluðust, og ég náði athygli læknisins með óhljóðum, þeim sem ég hafði bara getað framið síðastliðna mánuði. Brúnleit augu hans litu í mín, en hann gaf mér eitt fast högg í viðbót, algerlega úr takt við hin, einsog til að þagga niður í nemunum sem voru farin að grínast og höfðu gleymt mér. Ég vildi gera mig eins vinalegan og ég gæti, og opnaði augun:
"Ekki meir. Þetta er orðið - alveg nóg fyrir - mig. Takk - vinur."
Ég hafði sagt margt í gegnum tíðina, blótað og verið leiðinlegur, ég hafði sært og verið særður. Lestir mínir í gegnum tíðina, voru óteljanlegir. Á unga aldri hafði ég yfirgefið guð, rægt hann í partíum og þá sem trúðu, hvað svosem fólk trúði á. Það þykir mér sárt núna. Sorrí. Seinni konan mín hafði svo dregið mig í trúfélag, sem ég vil ekki nefna, og er hvorteðer ekki lengur til, en það má vitnast að í rúm fimm ár bjó ég við heilalaust helvíti í samfélagi við algjörlega ógagnrýnið og vont fólk. Það trúði á Guð, en barði börnin sín. Núna hræðist ég ekki guð, því tímabili er lokið, hann er ekki til. Ekki frekar en guðir annara trúa, eða manna.
Lífið er fallegt, þó ég hafi ekki gefið því mikinn séns, allt þetta uppi og niðri dót var óumflýjanlegt, ég finn það núna. Það voru andartök svo hrikalega falleg í örmum stelpna, innblásin meistarverk jarðarinnar, svo hugulsamar og góðar, andartök sem ég misnotaði fyrir sjálfan mig. Í mótvindi ætlana minna, í byltunum og klúðrunum, þá bognaði ég einsog lélegur leikari, en það var fallegt, það var mitt hlutverk. Og allt annað sem fór í vaskinn, það var líka fallegt. Lífsgæða kapphlaupið var fyndið, ég hef húmor fyrir þessu nú þegar ég er að að deyja. Húsið sem konan tók af mér, hvað var það? Kjaftæði. Plöturnar, bílarnir, gjafirnar. Kjaftæði. Þegar ég skammaðist mín fyrir eitthvað, vildi ekki fara eitthvað í heimsókn, fyndið - fyndið kjaftæði.
Líf mitt var allt þetta, og kramdir draumar, fokk it. Þessir draumar voru ég. Ósk þarf ekki að rætast til að rætast, ósk er ósk. Hefði ég orðið rokkstjarna, væri ég endilega eitthvað betur staddur? Hefði ég fengið stöðuhækkunina, væri ég þá ekki veikur og að deyja? Ef ég varð veikur vegna þess að ég fékk hana ekki, finnst mér það leiðinlegt, að ég hafi verið þannig maður, hann vildi ég aldrei vera.
Þegar þessu er nú að ljúka, eftir langa legu á sjúkrahúsi, hef ég algerlega sæst á að lífið er fínt. Það er meira að segja, of fínt fyrir suma, of gott við marga. Lífið, sá tími sem við drögum andann og hugsum, er hæð sem þarf að klífa, ég er líka búinn að ákveða það. Það er eitt hámark, eitt klæmax, á ævinni. Mitt kom aðeins of snemma, það þýðir samt ekki að restin hafi verið ömurleg. Ég átti nokkur góð atriði sem ég hef yljað mér við þessa undanfarna mánuði.
Ég leit í augu þess af krökkunum sem mest líktist stráknum mínum, tómt andlitið gaf ekki í skyn að hann næði að nema hve merkilegt móment þetta var, en ég mér leið aðeins betur með þá hugsun að kannski gæti hann tengst stráknum mínum, og deilt þessu með honum.
"Takk vinur," sagði ég aftur.
Ég talaði útí bláinn, en í stækkandi, svörtum augasteinum hins undrandi læknisins, sá ég oní svart tóm munns míns. Grænir flekkir sáust hér og þar í brúnu holdinu, þessar örfáu tennur sem eftir voru rétt glitti í. Bleik húðin þar sem augnbrúnir mínar höfðu verið, ylgdu sig, fellingar yfir votum augunum, sem ég vonaði að læknirinn skildi; plís. Ég átti næstum enga orku eftir, en hjartað sló, ég vissi að ég myndi lifa eitthvað lengur, en þetta var orðið gott, alveg nóg. 2046. 64 ár, ógrynni í raun og veru, og miklu meira en nóg. Og að minnsta kosti gat ég huggað mig við það að krakkarnir mínir færu ekki á hausinn mín vegna, hvorki vegna skulda, eða sjúkralegunnar. Þetta var þannig þjóðfélag, og ég hafði átt einhvern smá þátt í að gera það þannig.
Hvort það var kraftaverk að ég gat talað, bæði lamaður og tungulaus, er ég ekki viss um. Krabbinn var kominn útum allt, niður í háls og uppí nef. Ég ímynda mér, að ef æxlin hefðu ekki verið komin fram í andlitinu, hefði lækninum kannski þótt erfiðara að skilja við mig einsog hann gerði. Kraftaverk? Það var alveg örugglega ekki vegna sársaukans sem ég gat talað, einsog læknirinn hélt fram seinna. Ég vona frekar að það hafi verið ást á lífinu, eða af virðingu sem mér tókst að koma honum í skilning um ósk mína. Annars hefði ég getað orðið níræður, en hvernig líf væri það? Ekki virðingarfullt, það er ég viss um.
Læknirinn færði sig af mér hægt, tók upp tæki svipað því og Lin var meidd með, lagði það að hálsinum á mér, og hjartað hætti að slá. Ég veit ekki hve lengi hann hélt því þarna, en ég var vissulega dáinn, ég dró ekki andann, hjartað var kjurrt, og hjúkrunarkonurnar byrjaðar að aftengja mig við tækin. En læknirinn og ég, við horfðumst í augu. Ég man ég var að hugsa, hvort ég hefði ekki átt að geyma þessi orð sem ég gat sagt, og talað við strákinn minn sem vildi verða svartur, gefið honum eitthvað ráð. Það eina sem ég veit, og skiptir einhverju máli, er að lífið er í raun ekkert til að barma sér yfir, maður á bara að fylgjast með því, og sjá það fallega í því ljóta. Þá er allt fallegt. Við erum allt manneskjur, mér þykir leiðinlegt hversu óendanlega illa við getum komið fram við hvort annað. Og í hjarta mínu biðst ég afsökunar, og fyrirgefningar frá þeim sem ég gerði rangt, börnum, konum, foreldrum, vinum og viðskiptavinum. Það er bull að biðja loftið fyrirgefningar, en ég geri það samt, þið verðið líka að afsaka það að ég hef ekki getað talað í marga mánuði, og þar áður var ég frábitinn tilfininga flóði af öllu tagi. Tilfiningar eru það sem maðurinn er gerður úr, ekki peningar, eða hvað annað því líkt. Þær stundir sem ég átti með þeim, reiði, gleði og sorg, voru þær fallegustu og ríkustu í mínu lífi.
Ég var orðinn mjög þurr í augunum, þegar læknirinn lagði þau aftur. Ég vona að ég hafi brosað við honum.
....
Það var ekki þessa litla saga sem orsakaði þögn mína, nú í næstum viku, heldur spratt hún líka svona mikið fram þegar ég ætlaði að afsaka hana! Þögn mín er frekar afsprengi skýjaborgar vegna tveggja ævisagna sem ég hef lesið undanfarið, og ég ætlaði að skrifa um, en það gengur eitthvað illa.
Þessi saga að ofan, sem ég vona að einhver lesi, fékk í flýti hið lélega nafn Jóhannes B. 1982-2046, er að mínu mati ágætis dagsverk, eitt eftirmiðdegi sem loks varð að einhverju. Hún er svosem gölluð, en ég vil framkalla hana strax, frekar en að láta hana daga uppi, verða jafnvel mein á sálinni. Mér finnst ég hafa náð einhverju, verið 'on to something' sérstaklega því þessi saga er svo jákvæð, optimistik. Það er ekki venjan í minni sál, eða pári. Mér finnst hún að einhverju falleg á köflum, og - því ég veit auðvitað meir um manninn en aðrir - hún vera átakanleg líka. Eitthvað er óskýrt, hún er fer ekki um allt það svæði sem hún vildi, en, einsog ég segi, sérstaklega því ég er svo jákvæður í dag, er hún eitthvað.
Þetta var góður dagur, svo ég vitni í Ice Cube.
<./>