Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, ágúst 15, 2005

 

So every night I tell myself, I am the cosmos,

I am the wind.
But that don’t get you back again.

Chris Bell

(13. ágúst '05)

Það er merkilegt hvernig allt er bara til skrauts í þessari helgarveröld, einsmannsvesöld. – Hvernig allt snýst um mann sjálfan. Hvernig maður er alheimur: þegar þú andar elskan, snýst það um mig, og, ef þú andaðir ekki, þá snerist það um mig.

Í sótthita spilavítanna, ligg ég fram á borðin, dofinn, lamaður, slytti, flykki með þúsund tauma í allar áttir, tauma sem liggja í áhugalausum höndum. Kliður teninganna er mannsaldur, þögnin svörthvít endalok óumflýjanlegustu summunnar.

En, kæru áhorfendur, hafið engar áhyggjur, ég held uppi brosinu með sterkustu lyfjunum sem mér er mögulegt að nálgast, brosi brosi brosi. Ég bræði óttann; hrímið af heimsgluggunum þverr og fæðist, þverr og fæðist – torskilið lögmál. En ég er vindurinn, sóttheitur vindurinn, helsviti morgnanna; ég er augun í kíkjinum, dómarinn á göngunni, aukaslagið, léttasta grammið; ég er ellefti puttinn. Ég renn eftir síðunni á besta sleðanum og elska þig.

Það er satt – ég las það í bók – að fossahljóðin heyrast ekki í landafræðinni og þessar drunur, hræðilegu drunur, pínlegu bjöllur, þær skjalla nóttina og glamra fyrir mig og mér er ómögulegt að mæla þær: lýsa þeim, eignast þær. Og þó ég gerði, þá vildi ég ekki fyrir neitt gefa ykkur þær.

Ég er vindurinn; ég feyki, blæs, hrín.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]