Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

 

Ég var að dauða kominn úr hungri eftir ódauðleikanum.

Ég unni sjálfum mér svo óumræðilega, að ég mátti ekki til þess hugsa að sá dýrmæti ástnautur minn hyrfi mér. En þar sem manni er það ógerlegt í vökunni - ef maður þekkir sjálfan sig - að finna nokkur skynsamleg rök fyrir því að vífnum apaketti hlotnist ódauðleiki, er ekki um annað að ræða en að verða sér úti um gerviódauðleika. Ég girntist eilíft líf, og lagðist því með skækjum og drakk allar nætur. Að vísu skildu mannleg feigðarkjör eftir ramt bragð í munni mér að morgni, en ég hafði þó svifið í sælli leiðslu um hríð. Ég veit ekki hvort ég má hætta á að segja yður frá því, að það yljar mér enn um hjartaræturnar að rifja upp næturnar, þegar ég lagði leið mína í sóðalega knæpu til fundar við nektardansmey, sem var mér eftirlát; eitt sinn barðist ég með hnúum og hnefum við gráhærðan grobbhana, sem gengið hafði nærri æru hennar. Hverja nótt gekk ég inní rykmengað roðahúm þessa musteris gleðinnar, tók mér stöðu við skenkinn og drakk og drakk og laug svo hratt, að enginn hafði við að trúa, beið þess að dagur nálgaðist og hafnaði að lokum í rekkjunni, sem prinsesa mín gerði sér aldrei það ómak að reiða, og þar sem hún hóf leikinn formálalaust og var fallin í svefn um leið og honum lauk. Nýr dagur vafði ósigurinn mildri skímu, ég steig fram úr rekkjunni og stóð einsog steingervingur í dýrð morgunsins.
Camus, Fallið (Loftur Guðmundsson þýddi)

Hvílíkur mónólógur, sem þessi bók er.

Ég gerði samt, einsog fífl, sem Jean-Baptiste (Jóhannes skírari, ekki?), og gaf litlum stelpum áðan pening í rauðakross söfnun, raunar tombólu en ég hafði ekki áhuga; keypti mér frekar frið, enda var ég að koma úr banka. Það hræðir mig, að halda ég hafi gert það af annarlegum ástæðum. Og það daginn eftir lestur sögunnar af manninum sem hljóp til og greip af fólki blindingja til að leiða yfir götur!
---

Í nótt - einnig - með hausinn útum glugga og gráar hugsanablöðrur, sá ég eitthvað skjótast, hratt, yfir himininn, loftstjarna[wtf, hvað er það?], halastjörnu, geimfar. Óskin, óskirnar, kuðluðust í huga mér, og ekkert rætist. Nokkurn tíman.

Ó, Aladín! að ég hefði elta skó þína - við fljúgum samt saman undir sænginni.
---

Herbergið er lifandi; flest "... það nauðsynlegasta, hreint og fágað einsog í líkkistu."

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]