Fólkið hér er þægilegt og beint áfram, og mjög lítið um ósiði; kvenfólkið hefur hér engin brjóst, sem ekki heldur þarf, því hér fæðast engin börn, heldur kvikna börnin einsog maðkur í moldu; karlmenn ganga allsberir á veturna, nema með kýl, en í loðfeldum, ljónshúðum og pardusskinnum á sumrin, og hafa kylfu í hendi, sem er vætt í brennivíni á toppinum. Hér er aldrei neinn miðvikudagur, heldur hleypur tíminn yfir þann dag, svo þá er ekkert, klukkan er hér aldrei tólf, heldur alltaf eitt. Hér kyssir maður allt kvenfólk við hvern punkt í ræðunni, þegar maður talar við það; klappar þeim á hægri kinnina við hvern semikolon, og faðmar þær við hverja kommu; þegar exclamationsteiknin koma fyrir, þá má maður gera við þær hvað sem maður vill. Hér er dagurinn svartur á kviðnum, en grænn á bakinu; á sumrin er snjóaður himinn á nóttunni, en alstirnd jörðin; allt vín rennur hér upp á móti svo glösin eru alltaf á hvolfi. Peningar eru hér allir úr tígulsteini, og stjórnin öll lík því sem var í Spörtu. [...] Magnús Grímsson er hér aldrei nefndur, en allt fólk grætur yfir honum klukkan hálfsjö á morgnana.Svona lýsir Gröndal Germaniu (þar var víst "svo mikið vínlíf, að maður étur vínberin og drekkur vínið með") í bréfi til Eiríks Guðmundssonar 1858 - þetta var ekki nema example; þegar þetta er skrifað er hann í klaustrinu sem Djunki kom honum í, og ritað rétt áður en hann byrjar á Heljarslóðarorrustu. Þetta er húmor sem finna má svosem mikið og ýmisstaðar, en mér detta hug línur eftir Megas, td í Gömlu Gasstöðinni. Amk, skelli ég uppúr oft við að lesa Gröndal, það er ekkert víst svo margir aðrir hafi húmor fyrir honum.
Gerast áskrifandi að Ummæli [Atom]