Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

 

I never bathe in it, darling.

Got down on my hands and knees.
Got in so far, I became, well, a part of it all.
I've been wading through it,
don't you know it's up to my neck?

tindersticks - bathtime

Klukka nágranna minna á fyrstu hæð, er líklegast stór standklukka, með einhverskonar gylltu prjáli og gleri svo maður sjái tímann líða; hún segir ekki eilíbbð, eilíbbð, eða hvernig sem það var, heldur bara dong, eða djong (eitthvað skært þarna). Ég þekki ekki þetta fólk, hef ekki séð það, en get ímyndað mér hvernig er umlits.

Á næturnar les ég brjef Gröndals í þögninni og hlæ; ég hef sjaldan lesið neitt jafn fyndið og málsgreinina sem byrjar svo:

Fólkið hér er þægilegt og beint áfram, og mjög lítið um ósiði; kvenfólkið hefur hér engin brjóst, sem ekki heldur þarf, því hér fæðast engin börn, heldur kvikna börnin einsog maðkur í moldu; karlmenn ganga allsberir á veturna, nema með kýl, en í loðfeldum, ljónshúðum og pardusskinnum á sumrin, og hafa kylfu í hendi, sem er vætt í brennivíni á toppinum. Hér er aldrei neinn miðvikudagur, heldur hleypur tíminn yfir þann dag, svo þá er ekkert, klukkan er hér aldrei tólf, heldur alltaf eitt. Hér kyssir maður allt kvenfólk við hvern punkt í ræðunni, þegar maður talar við það; klappar þeim á hægri kinnina við hvern semikolon, og faðmar þær við hverja kommu; þegar exclamationsteiknin koma fyrir, þá má maður gera við þær hvað sem maður vill. Hér er dagurinn svartur á kviðnum, en grænn á bakinu; á sumrin er snjóaður himinn á nóttunni, en alstirnd jörðin; allt vín rennur hér upp á móti svo glösin eru alltaf á hvolfi. Peningar eru hér allir úr tígulsteini, og stjórnin öll lík því sem var í Spörtu. [...] Magnús Grímsson er hér aldrei nefndur, en allt fólk grætur yfir honum klukkan hálfsjö á morgnana.
Svona lýsir Gröndal Germaniu (þar var víst "svo mikið vínlíf, að maður étur vínberin og drekkur vínið með") í bréfi til Eiríks Guðmundssonar 1858 - þetta var ekki nema example; þegar þetta er skrifað er hann í klaustrinu sem Djunki kom honum í, og ritað rétt áður en hann byrjar á Heljarslóðarorrustu. Þetta er húmor sem finna má svosem mikið og ýmisstaðar, en mér detta hug línur eftir Megas, td í Gömlu Gasstöðinni. Amk, skelli ég uppúr oft við að lesa Gröndal, það er ekkert víst svo margir aðrir hafi húmor fyrir honum.
---

Á næturnar, þegar ég les brjef Gröndals til bæjaryfirvalda og bankastjóra, ritgerðir hans um skáldskap og náttúrufræði, þá les ég í næturkyrrðinni, hljóðbæru hreyfingarleysi svefnlíkamanna, verkfæra og þræla þeirra hvíld; það bregður stundum fyrir skugga á tjöldin þegar einhver sálin heimtar dóp af hinum kjallarbúanum gegnum gluggann; annars er lítið um hljóð nema aur og forarvilpur Reykjavíkur og Kaupmannahafnar sem sladda og skvetta, kannski skræka löm eða legu í hestvagni - en það er allt ímyndun.

Það eina sem er ekki ímyndun í þessum sessjónum, er tíminn, tíminn sem líður hraðar hjá nágrönnum mínum á fyrstu hæðinni: þegar klukkan er þrjú, slær standklukkan, - eilíflega í bakgrunni allra boða og hófa, svo lúmskt alltaf í hugum þreyttra brosa allra ljósmyndanna - þá slær standklukkan fjögur högg.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Ummæli [Atom]