Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

 

What are you like? You've had a right life

and taken a long ride, but oh what a cost!
And all of your life, staring at white lines,
reading the road signs, and oh what a loss!

Richard Hawley - Born Under A Bad Sign

Stórir fingur úr krumlu Borgþórs og nettari mix-fingur hr. Samplings:

Það sem ég hef í huga að gera áður en dey, er flest af eftirtöldu: fara til Azor-eyja, ég veit ekki hvað það er, en eitthvað dregur mig þangað, einhver örlagaskylda, sem ég verð að uppfylla, kvennmaður eða álíka fjársóður sem heimtar sig; skoða mig um á póstskipinu til St. Helenu og jafnvel Tristan Da Cunha; fara til Kyrrahafseyjanna flestra eða einhverra, svosem sama og að ofan, en ekki jafn sterkt; bomba út einhverjum bókum, sem einhver líkur mér, nennti að lesa eftir 50 ár; seðja hungur mitt og þorsta; kyssa á bágt og plástra harm (bara allt í einu! þetta hef ég aldrei hugsað áður!); kveðja fallega og vonandi sáttur. Ég veit ekki hvað þetta er mikið af itemum.

Það er nú ýmislegt sem ég get gert, en flestu er ég ekki stoltur af, svo óstoltur að það fer ekki einu sinni hingað. Samt, ég get: vorkennt mér; bullað upp fáránlegar nojur; vakað og lesið framundir morgun í einni sveittri kös, án þess jafnvel að reykja; samsamað mig við allann blúsaðann popptexta sé hann nógu vel sunginn og leikið á harma taugarnar; ég get - ég hef - reykt vel yfir tvo pakka af sígarettum á einum degi, án þess ég sé að þykjast skemmta mér (er ég svona stoltur af því?). Að endingu, þá gæti ég látið þess getið, að ég get hugsað útí loftið nær endalaust. En það er svosem það sem mig dreymir um að fást við.

7 hlutir sem ég get ekki gert? Svo mígmargt að mér fallast hendur. Td get ég ekki verið lengi þarsem vond tónlist er spiluð, það er mín helsta martröð kannski. Ímyndið ykkur að vera fastur í hraðskreiðum, reykfylltum bíl á fleygiferð um húsagöturnar í Grafarvogi, án þess þó þú hafir nokkra stjórn á stýri eða öðru, með bassann svo hátt stilltan, að þú veist varla hvort þú sért á lífi, nema því bassinn drynur? Svo eru þetta kannski handrukkarar, sem sparka í þig uppí Heiðmörk og skilja eftir, símalausan, úlpulausan og með enga nögl á þumalputtunum? Ég verð svo hræddur við tilveruna, að ég gái bakvið gluggatjöldin og tvítjékka hvort læsi-takkinn sé ekki þessa millimetra inni, sem hann á að vera...

Hitt kynið? Bæði kynin heilla mig með staðfastri tilveru sinni. Ég er farinn að taka tilveruna í meiri sátt en áður: að vera, það er ekki svo slæmt, ef maður fer rétt að því. Í gærnótt, þá var ég að hugsa að maður þarf ekki endilega að afneita Adam og Evu (eða öðrum, sambærilegum þjóðsögum um hinn fyrsta mann), þó maður aðhyllist þróunarkenninguna. Mér fannst það, alltíeinu, bara hrikalega falleg hugmynd, eitthvað sem við ættum að fagna. Við, mannfólkið, erum nú einu sinni til. Og ætli það sé ekki helst þá vegna forfeðranna? Ég er ennþá að hugsa þetta með sjálfum mér, en sé svona framá, að þetta verði jafnvel fyrsta versið í heimspekinni minni, þessum móral sem ég hyggst standa og falla með; syngja svo þurt, rammt og bjart.

Annað? Líkamshluta vil ég eiga fyrir sjálfan mig. En segi þó, að það er í raun mikilvægara hvernig fólk ber þá hversdaglega, við vitum að þeir eru þar (eftir að maður kemst á aldur). Að lokum, þá er eitthvert sambland mengaðs (e. tainted) sakleysis og bjargarleysis, sem helst má finna á heima-vídeóupptökum, sem heillar mig. Allt má vera rotið fyrir mér mér, bara ef það kann að skammast sín og hefur stór augu. Ég fyrirgef flest (og bið varla um annað sjálfur).

Frægar konur sem ég heillast af? Hvaðan kemur þetta "heillast"? Má ekki segja neitt lengur í þessu samfélagi! Segi ég, sem ekki tala, heldur blístra undir rósunum!

Jæja, ég get strax viðurkennt að ég hef lengi verið heillaður af Thandie Newton, þessi sæta svarta, sem lék með Tupac og Tim Roth í Gridlock. Suzanne, sem Cohen söng svo fallega um, var í uppáhaldi og má sjá hér til vinstri. Það er þó auðvitað best að halda á arfaslakri Death of a Ladies Man-plötunni sjálfri til að skilja. Einnig minnist ég konunar sem Erró var með, og má sjá í bókinni um hann. Yfir myndunum af henni féll ég í stjarfalost bara 10-12 ára og skoðaði hana oftar en annars skemmtileg málverkin hans Erró. Eins leitaði lengi á mig Lizzy Mercier Descloux, sem gerði víst músík sem ég hef ekki heyrt. Hér er mynd, en mikið þykist ég kannast við þetta andartak (þetta er annars gott dæmi um svona 'tainted' sakleysi). Hversu hugfanginn ég var, ef það má kalla þetta svo merku orði, var ekki síst vegna lýsinga er Richard Hell á "henni" í Go Now. Hér eru tvær aðrar myndir, þær fylgja minningargrein Hell um Descloux, sem lést árið 2004.

Mér þykir þetta samt leiðigjarnt efni að spá í og læt hér staðar numið.

Ég sé þrjár tómar rauðvínsflöskur; ég tygg tappana til að reykja ekki. Vekjaraklukkuna, hún er 2:31. Ég er að hlusta á lög sem ég náði í af síðunni hans Richard Hawley, exclusive eitthvað. Ágætt stöff, maður skilur samt að hann hafi ekki nýtt þau á plötuna. Ég sé tannburstann minn og tannkremið; þau spyrja hvort ég sé ekki að fara að sofa. Ég sé ljósmyndirnar sem ég stal úr dánarbúinu okkar, ég lýsi þeim seinna ("...people take picture of each other..."). Ég sé margt ef ég lít í kringum mig.

Meðal þess sem ég segi oft, hlýtur mannkúla! (og varíasjónir á því td mannstöngull!, mannstubbur! mannhola!) að vera ofarlega. Það er einsog annað smit, en mér finnst það soldið skemmtilegt. Eins hlýt ég að segja hastarlega Hættu þessu! við systur mína nokkrum sinnum á dag, en oftast rík þörf þar á. Ýmislegt fallegt og gott segi ég líka. Gjörðu svo vel! og Takk fyrir (með alvöru brosi)! segi ég ávalt í þessum bakaríum sem selja mér lífsgleðina. Annað var það nú ekki sem mig rekur minni til. (Ég hef ekki geð í mér, til að rifja upp öll þessi rapp-læti sem ég læt svosem oft útur mér, einhver gömul gettó blótsyrði og upphrópanir.)

Ég hef nú í huga að kitla eftirfarandi rækilega: Örnu, einsog ég er vanur; Stíg Helgason, því hann ætti að geta leyst þetta verkefni með sóma; Atla Viðar, því við viljum öll vita hvort það sé eitthvað sem hann getur ekki!; S.Helgu, því henni fyndist ekki á öðru sæma en ég klipi hana; Sigga T., bara svo við komust öll að því hvort hann kunni enn lykilorðið og geti eytt nafninu mínu þaðan; Erlu, vegna barnanna, einsog maður ansar síspurjandi fólki, annars væri forvitnilegt, aftur, að heyra hvað hún sér í kringum sig; Arngrím eðalblogger, aftur, vegna barnanna, en líka vegna alls hins!

Ég hyggst ekki ferðast vegna þessa kitls; það er mun betra að fólk rambi hingað inn að óafvitandi og verði loks kitlað uppúr engu.

Ég þykist líka hafa afsannað að svona fyrirbæri, sem annars hefði ekki verið nema þurr upptalning, geti verið fróðleg. Ég valdi að hafa átta atriði, enda var ég ekki að grínast með kuklið. Annars skemmti ég mér ágætlega við gerð þessarar tilgangslausu upprifjunar og hrærigrauts mis gáfulegra uppljóstrana, ágætis dægradvöl engu að síður. Vonandi er ég nú búinn skarpari dráttum fyrir vikið í augum ykkar.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]