Short of perfection, I'll try to be good.
I'll stand at his gate,
I'll wait for his sign,
then I'll walk in his garden
when it's my time.roxy music – psalm
Ég er ekki trúaður, en undir sálmi Bryan Ferry kemst ég líklegast næst því. Hugmyndin um alföður sem hirðir mann úr greipum dauðans og sér til þess að mann þyrsti aldrei í svölu faðmlagi hans, sú hugmynd teymir mig á asnaeyrum undir sálmi Ferrys, ég trúi á sálminn.
Stranded, þriðja plata Roxy Music, er næsta fullkomin; samhljómur allt í gegn, en samt svo fjölbreytt, popp, sálmur, amasónu fönk og lag ofgnóttarinnar, Mother of Pearl. Fyndið að fólk virðist hafa haldið að þeir myndu engu koma frá sér nokkurs virði eftir að Brian Eno fór, en Stranded sannar hver var snillingurinn – þó Eno sé ekki síðri smiður, þá kemur það æ meir í ljós að hlutverk hans í Roxy Music var ekki mikið, hann kom ekki að tónsmíðum, varla að pródúsjón, ekki að ímyndarsmíði, en sneri tökkum af mikilli list. Eno hefur líka lýst því að dagurinn sem hann hætti í Roxy Music hafi verið einn af hans hamingjusömustu dögum, hann hafi hlaupið niður einhverja götu í góðum fíling, frjáls og kysst þá sem hann hitti. Ferry hefur líka getað verið djöfuls harðstjóri, get ég ímyndað mér. (Reyndar er samkrull eftir Eno og Ferry á síðustu plötu Ferry, sem er frábær, einsog lagið, I Thought. Ekki veit ég hvernig samvinnan hefur verið, en útkoman er glimrandi gott gáfu popp sem í réttlátum heimi væri allþekkt. Mæli með því, og plötunni, Frantic.)
Street Life er önnur Virgina Plaine, frábært í sjálfu sér og sem upphafslag plötunnar, en stenst ekki samanburð við bæði sjálfa Virginu Plaine né þá heldur Do The Strand, sem ég yrði að telja fullkomnun á þessu kóruslausa og orðríka og hraða dansiballa poppformati.
Óðinn til Evrópu, sem fjallar nánar tiltekið um borgir hennar, á einnig við, í þessum pældu dettum sem plaga mig. Mér er það sérlega minnistætt að spila það á hótelinu okkar í París, líta út á litlu hliðargötuna undir kvöld. En það er aðallega minningin um upplifunina við að hlusta á lagið sem ég man, ég man ekkert annað. Og 'Jamais, jamais, jamais, jamais...' Og þú sagðir mér hvað það þýddi.
Ekki veit ég hvaðan titill plötunar kemur, en ef ég yrði að velja eina plötu í krúsó-ferð, þá er ekkert ólíklegra en annað að ég tæki með Stranded.
>