númer 4Ég tala um borgina sem veit af sér einsog tönnum, sofnar til að vakna og vaknar til að sofna, borgina sem bætir alltaf sjöundu hæð við í lægðinni,
borgina sem í stærð sinni umvefur alla og um alla framtíð, sem rykkorn dúar á sæng, vegur salt á sjónarröndinni, og tekur mót hverju falli glerbrotnum faðmi,
sem er tóm í glösum baranna, sem er full, sem svífur, sem svíkur, sem svindlar ummáli sínu inní rúm til þín og langt frammá næsta dag,
um hrópin sem gjalla milli handanna, veskin sem framkalla tár, góðláta depurð skammdaga og hjartaáföll tímamóta, heftandi blöðrurnar og marglita ammæliskerta mergðina sem missir af óskastundum hvunndagsins,
um óumflýjanlegu hornin þarsem leiðir skiljast ömurlega, rauðu karlana sem vaka af sér gráa nóttina, og teygja sig og orna sér við úrkast þess þegar verðandi foreldar hittast,
þarsem uppa-partíin eru einsog eini snjóþungi dagur ársins, og geðlæknar á bakvakt eigin tilfininga, ryðja krökkunum í starandi kalda sjónvarpsbláa hauga magnleysis, um barnapíurnar sem klæjar undan dagskrá tímans og fantastískri bakhönd ímyndunarinnar sem klórar og klórar, fóðrar framtíðina misnotkunartilfelli,
smáborgarann sem hnussar að tómum strætóum og vælir, sem hefur langar raðir góðgerðarstofnana með á rúntinum, sem hlær að dósasöfnun og kallar Góða Hirðinn fátækrabúð, sem hrís við annara augum, sem á ekki fimmtíukall, um borgina sem upphefur tillitsleysi,
sítrónufésin sem berja glóandi ég-gerði-ekkert sakleysi í hvíta víkinginn með klink í sokk, sem menga með matarlykt mörg þúsund kílómetra af stigagöngum, sem hópast ærandi saman, sem skeina gamlingjum í heilagri þögn,
hommana sem vilja kannski líka bara fá að ríða útá götu einsog hundtyrkinn? og lessurnar sem koma köllunum til og eru einsog Spartverskar ljósmæður hundruða barna í víðum íþróttasölum og hitaveitustokkheitum faðmlögum rúmanna,
ég tala um borgina sem gapir við fjallahringnum, borgina sem blánar við Esjunni, um tippinn sem tekur þegjandi við fjörgömlum bílhlössum hégómlegra háhýsagrunna, vörubílstjórana sem gráta við sitjandi sól sundanna, yfirvinnueldgulu hafinu, hossast snöktandi heim að éta leifar ómegðarinnar,
horbrunnin leikskólabörn í steinrunnum pollagöllum, börnin sem vilja ekki sofna undir grafartakti styttuleiksins, foreldrana sem fremja ódæði sín með blóðhertum járnaga og þróttmiklu eftirlæti, og glædd sælli þögn dansa þau undir sigurboga launaseðlanna, kannski tvöhundraðþúsundkrónu andardrátt eftir kaffæringu mánaðarins,
um aumingjana sem geltu sig með áhugaleysi fyrir sykurbrenndan heilagleik pabbahelganna, einstæðu mömmurnar sem hvílast ekki í umlandi slefnóttinni, en þrífa svo átakanlega fallegar en annað fólk,
borgina sem át börnin sín,
sem framleiðir samfarahljóð á spólur,
um strákana sem reykja úr skítugum lónum, sem fylla þrjúhundruð fermetra af tárum, og einn bílskúr útblæstri gleðileikja sinna, legsteinana sem skipta engu nema þessi eini,
og um vini mína sem vinna fyrir skuldum sínum með fálkalegri einbeitingu, hrafninn sem eltir þá, og hælinn sem draugarnir narta í, brosin og gleymskuna þeirra, einmanleik okkar beggja,
um borgina sem byggir á ýkjusögu, djúpstæð sporin sem lágu að þvottalaugunum og til baka, öll gengnu sporin sem draga í sig birtu hvers dags í bakkói gröfunnar og kaplana sem þegja þeim annars til samlætis, lækinn, sem liggur ósýnilega bundinn í öll jarðlög náttúrufræðingsins Jónasar, milli Tjarnarinnar sem drekkir ömurlega góðum mönnum, og saltrar grjóthleðslunnar sem molnar hægt fyrir oddhvössum sjónum, sr. Friðrik sem reykir enn vindla en nú í steyptu laumi, um torgið og Fríkirkjuna, um Tómas og illskeyttu svanina sem vitna í hann,
um Gröndal og universal-kamarinn, mógröf Einars snikkara, og andlitslaust 19du aldar barnið dregið þrekkótt upp yfir höfuð úr gryfjunni, sömu börn og síðar runnu í hlandfor framfaranna,
vesturfarana sem komu aftur, og matvandan Birkiland úðandí sig kræsingum og fullan og ruglaðan,
um Seltjarnarnes sem ekur sér í hægindastól, dæsir og púar útum turnglugga einsog prinessa, og full af slúðrandi umvöndun í lystarstolnum kvennfélagsboðum kveinar hæst í kveinkórnum yfir lygilegu myndbroti úr fréttatímunum,
kirkjurnar sem hreykja sér af hæsta steini, sem er full á jólunum, og krossana sem stirnir á einsog gotterí í dimmum skáp, sem gónir einsog skáld án nokkurra svara, sem er álíka uppalandi og leiðarljós, um prestinn sem seldi sig einsog hóra með sæðisdropa á kinn á heilsíðum í heilögu nafni seríóss,
um gondólana sem marra í takt undir þungan morgun, vont kaffið sem þeir leysast upp í, um slepjulega rauðan vef peningaköngulónnar í svefndrukknum augum kúnna sapiens, um vasaþjófsbros markaðarins, innkaupakerrur endalokanna og þreytt takk fyririn,
ég tala um brotholurnar sem vekja mann einsog jarðskjálfti,
sorgmæddu skýin sem fara bara til að koma, skuggann sem fellur á skjólbestu skot borgarinnar, speglana sem ljúga, leikföng sem brotna, kærustupör sem hætta að tala saman, leynistaði sem gleymast en grær yfir einsog gýg í ofurvori friðarins,
um stelpurnar sem brosa stöku sinnum við manni yfir bíólýstan bar, fullar brjósta og allra handa handtaka, stelpur sem drepa á tímanum í afhjúpun, sem hleypa upp þögninni með þröngri tilveru sinni, og vinna nótt í einmana höndum,
ég tala um borgina sem drap Steinar, sem drap Dag, sem drap Rúnar Gunnarson,
um Miklatún, næststærsta frímerki jarðar, Vatnshólinn sem hrynur rymjandi meir með hverjum degi, gárurnar í lögg tankana og gaslogann, Háteigsveg sem hallar uppí mót í báðar áttir uns maður dettur,
í bréfum tala ég um borgina sem risti í mig fangamark sitt, á kaffihúsinu sagði ég að hún væri stærri en hefluð örlög okkar, í símann sagðist ég vilja fara, í endurvali einverunnar tala ég um borgina sem hlustar ekki, má ég þá særa mig? ljóstu vita þína sjóðandi svari, ég er týndur í þér;
það er svo auðvelt að láta sjálfsmorð verða að veruleika, þú veist;
ó, handtak þitt er þurrt einsog þúsundkall og þú veist það, og uppljómun okkar er nátengd því,
og ég tala um það allt.
janúar/ febrúar 06
lesist helst ekki í hljóði, takk>