Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

föstudagur, mars 24, 2006

 

But then I knew that very soon you'd leave me,

but it's all right,
now I'm not frightened of this world, believe me.

kinks – days

Eftir smávegis möndl
og nokkur millandasímtöl eru miðarnir á Raymond þvísemnæst komnir í hús, ég sæki þá í lúguna. Það lá í lausu lofti um stund, hvort það tækist, hvort ég myndi þá fokka þessu, einsog öðru, upp. Skandinavísku prataði ég alltaf í byrjun: “Jag hedder Skappedin o' ringer fran Island, etc.” uns ég bað viðkomandi að prata ensku við mig.

Las einn kafla í Pa Drift, með On the Road til hliðsjónar í gærkvöld, það gekk ágætlega. Eins hafa textlesin lög Hákons Hellström hjálpað, þó ég nái ekki öllu, einsog er viðbúið. Veit ekki hvort ég búi nokkuð að fyrri sænskutali í heilanum, hef svosem enga þekkingu á eintali, tvítyngi eða þrítengi, hvað þá ég skilji heilann heldur.

Man ekki hvort ég hafi nokkurntíma, hér, greint frá gulu brevspólunni sem ömmu var send hingað, eða á Rauðarárstíginn, árin 85 eða 6, og hún gaf mér svo seinna. Hún gat ekki notið hennar, hvorki fyrr né síðar: hún skildi hana ekki. Á spólunni útmálar url þetta sig um lífsins gögn og gæði, með sínu krónískt stíbblaða nefi og hybrid af sænsku og íslensku, sem enginn utan mömmu skildi (veilipeinn = jólasveinn). Spólan, heiðgul einsog sólin í fánanum, á að vera í fórum mínum. Fokking góð spóla.

Svo lærði ég að tala, án nefs og sænsku, og vildi ekki þagna.

Meðan ég þagði í dag, fór ég að hugsa um ömmu og spóluna, núna nenni ég ekki að tala, nema til að eyða vandræðalegri þögn. Og oftast varla. – Í bingnum niðrá stöð var ma íbúaskrá Reykjavíkur fyrir árið 1979; á Rauðarárstíg 32 voru skráð amma, V. systir mömmu og G. bróðir hennar, þó með aukaheimilsfang á sveitabæ á Snæfellsnesi, hvar nálægt hann nú býr(!); Rabbi ekki enn fluttur frá Ísafirði, en Guðni Már Henningsson, útvarpsmaður og Kinks fan skráður; önnur nöfn þekki ég ekki. Deja Vu við að horfa á skjáinn. Í Meðalholti 10 þekkti ég öll nöfn, og mörg á átta og nokkur önnur í götunni.

Seinna bjuggum við mamma á Rauðarárstíg 32 og þar, nokkrum árum síðar, en þá vorum við komin í Meðalholt, er mér óx kraftur með aldrinum, færði ég þar ótal skápa og rúm og borð til og frá, í þykkum reyk ömmu og undir skipunum hennar, sem var ekki við neina fjöl felld þegar kom að innanhússtilfærlsum. Hún hafði nokkuð marga í þjónustu sinni við þetta athæfi, og ég man eftir að hafa fært hlut til í íbúðinni, bara til þess að færa hann svo aftur alveg eins nokkru síðar, þá hafði hún fengið einhvern til að færa fyrir sig aftur. Ætíð var maður verðlaunaður með gosi og nammi, stundum las hún fyrir mig ljóð í kaupbæti, ég man ekkert nema upplesturinn. Stundum fórum við niður í bæ, og nokkrum sinnum fórum við tvö á Keisarann að hitta eitthvert gott fólk. Svo dó amma og Keisarinn lokaði, þá hafði nafna hennar og frænka mín unnið þar á barnum um tíma.

Alveg til sumarsins 1996 var hurðin að húsinu Skarphéðinsgötumegin alltaf opin, aldrei læst. Þó ég væri ekki að fara til ömmu, kannski útí Draum að kaupa sígarettur í stykkjatali, á 25kall, þá gekk ég þarna í gegn, frekar en að fara stigagangi lengra og upp litlar tröppur og beint útá Rauðarárstíg. Mér finnst ólíklegt að þar sé enn opið, en ég hef ekki reynt það.

Ég man eftir konunni í kjallaranum sem leit út einsog ugla og var leiðinleg, maðurinn hennar var enn leiðinlegri fannst mér. Svo vissi ég að konan dó. Einhvern tíman löngu síðar, 2000ogeitthvað, vorum við að bika á nafngötu minni, og ég, sem almanntengill, varð að banka þar uppá og biðja manninn, sem leit algjörlega út einsog annar af svalasitjurunum í Puppet Show, að færa bílinn sinn. Þá var hann í sturtu en opnaði með brosi, og var glaður, svo glaður einhvernveginn, að ég hef aldrei litið slíkt. Hefði ég talað þá hér, hefði ég talað um það; guðveit ég gerði það þá, en skakkur og fyrir daufum eyrum í playstationbælum.

Ég man þegar mér var óglatt á leiðinni í strætó á leiðinni úr Glæsibæ, þarsem rauðvínslæknirinn hafði nælt úr mér nefkirtlunum og þegar ég ældi á klósettinu, undir viftuhljóði einustu einverunnar sem var möguleg á fyrstu hæð til vinstri á Rauðarárstíg 32. Ég man ekki þegar ég var skírður þar í stofunni, en ég man þegar ég hitti prestinn sem skírði mig mörgum árum síðar í JL-húsinu og hann mundi eftir ömmu og mér, fangelsispresturinn atarna. Ég man þegar við horfðum á Kúreka Norðursins, og ég man eftir lyktinni. Ég man þegar amma var ekki heima og ég fór uppí geymsluna á loftinu og sofnaði, innan um skíði og bækur og drasl og dót. Ég man þegar ég keypti nammi fyrir afganginn af fimmþúsundkrónuseðli hjá Júlla og fór að skila því, úr Hagkaupspoka, ég man að hann lét mig aldrei gleyma þessu. Ég man að hann kom í jarðarförina hennar.

Ég man eftir lyktinni.

Ég man eftir myndinni frá jólunum, þarsem ég sit lítill og grátbólginn með fýlusvip við stóra skál af brúnuðum kartöflum og allir aðrir brosa sínu blíðasta jólabrosi. Ég sá hana um daginn og sagði systur minni aðeins frá ömmu okkar. (Þar sannaðist að “celluloid heroes never really die”.)

Þegar hún fór á spítala og lá þar, gömul veik, man ekki til þess nema mér hafi bara einu sinni boðist að fara og hitta hana, en ég valdi að fara út að leika mér með sígarettur og rölt um bæinn í frosti og dúnúlpu. Amma dó einum, tveimur, þremur dögum síðar. Helgina eftir fór ég á fyrsta ærlega alvöru fylleríið mitt.

Ég sakna ömmu ekki, en ég sakna þess að muna ekki meira. Þessvegna er Days enn sárara en annars stundum. Einsog í dag.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Ummæli [Atom]