Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, mars 06, 2006

 

I walk down the lane

with a hap-hap-happy refrain,
singing, just singing in the rain...


Fór út í kvöld að ganga einsog gömul hjón.

Kveikjarinn stamaði svo ég keðjureykti eftir og niður Bólstaðarhlíð, eftir Lönguhlíð í norðaustur, niður Flókagötu og eftir nafnlausa gatinu (sem sumir segja að sé Reykjahlíð) inná Háteigsveg, uppað Meðalholtinu og niður það til hálfs, aftur út um nafnlaust gat inná Stórholt smá spöl að Skipholti sem ég gekk svo heim. Skipholt var ömurlegast, aðallega opnari hluti þess við Færeyska sjómannaheimilið, þar keyra bílarnir hraðar og með meira þjósti, eins er dimman þar bara dauð; ég vildi ég hefði farið annað. Það var einn á Pítunni, að ég sá, stúlka skúraði í kringum hann.

Ýmsustu gluggar hafa ýmist breyst eða horfið. Einstaka jólaseríur skáru í augun, einstaka æskuvinir eignast börn og flutt. Örfáir urðu á leið minni; enginn sem ég þekki. Ég stansaði ekki á Ný-mynd, sem breytti nafninu sínu í James bönd, þó mig vanti kveikjara. Datt ekki í hug heldur að fara í Pólís í Skipholti, fólkið sem hengur þar í spilakössunum hræðir mig.

Það er ekki rétt hjá nojunni, að það hafi verið deathwish að fara, klæddur einsog við jarðarför, út í myrkrið. Ég á bara engin endurskinsmerki, aukinheldur passa ég mig alltaf þegar ég loka augunum yfir götur.

Hlustaði á plötu sem ég fékk nýverið gefins, meðan ég rölti, víðáttan – allt er stærra en skotgröfin – gaf henni auka vídd, lífvæddi hana (þetta er allt voða stutt sem ég er að fara hér í gröfinni). Reyndar hafði ég bara heyrnartólin um eyrum þegar ég gekk látmestu stéttarnar, annars heyrði ég óminn af herðunum, það færði mér hlutdeild í öllu sem er fallegt og ljótt, fjarvist og nærveru. Þannig heyrði ég þegar Dusty söng og þegar maðurinn keyrði á kantinn. Það var fallegt.

Á Bless the Weather klykkir John Martyn út með stuttri útgáfu af Singing In the Rain. Það er líka fallegt, platan að einhverju leiti um veðrið. Varla nokkrir dropa hittu mig þó í kvöld, og ég söng ekkert, en það var ágætt þó, stutt en ágætt – einsog lagið hans.

Næst ætla ég að taka með mér betri kveikjara; og fara lengra, komast að einhverju sem ég vissi ekki fyrir.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]