Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, mars 20, 2006

 
Og þar áttu, fóstra, þinn framtíðar her:
þinn frjálslynda unglinga skara,
sem berst undir merkjum vaskar en vér
og vogar þar djarfara að fara.

úr Í landsýn e. Þorstein Erlingsson =

Ögh! Er þetta ekki einkennisorð einhverra hve ég hata?
---

Gerði annars góðan díl úr ruslagámnum niðrá stöð, margar bækur og flestar á fornbókastigi, en illa farnar allar. Nokkrar skáldsögur, eða þess eðlis, annað sagnfræði, ma mjög falleg og ríkulega myndskreytt útgáfa á ferðabók Marco Polo (umdeilanlega sagnfræði?). Og Arab[í]skar Nætur, úrval úr 1001 Nótt í þýðingu Tómasar Guðmundssonar og Páls Skúlasonar, sem ansi leiðinlega vantar á kjölinn, ég sé ekki betur en hann hafi verið skorinn af! Nokkrar bækur af fræðilegum toga, sem ég kýs að láta ekkert uppi með hvers toga eru, en ég tel þær geta nýst mér í bráðgerðum tilraunum og verkum. Þær eru afar skringilegar. Ein stutt saga í lítilli bók, prentaðri um 1920, hét Flygillinn frá Tingshau. Það var ekki flygill, ég læt lesendum eftir geta hvað flygillinn er.

Langt út í löndin, er úrval utanfarasaga, í hverri eru kaflar eftir Eirík frá Brúnum (sem ég hef verið að lesa undanfarið), Benedikt Gröndal, Laxness, Sigurð Breiðfjörð (sem Óttar Guðmundsson næstum drap úr leiðindum fyrir mér) og Þorstein Erlingsson, auk annara. Ég minnist sérstaklega á Þorstein, því ég var að heyra að hann á son á lífi, Erling Þorsteinsson! Mamma sá hann keyra um daginn. Það, að Þorsteinn “Þyrnar” Erlingsson eigi son á lífi, sem keyri löturhægt um götur borgarinnar, lætur mig langa í kaffi úr postulínsbolla.

Tilvera háls- nef- og eyrnalæknisins gjörðist mér ljós, þegar mér var sagt frá því, að í boði einu í árdaga, hefði hann haft það að orði, byrstur, bráður og reiður, að færi herinn: Þá fer ég líka! – Það var til marks um hver umræðan hafi verið hörð í þá daga. Nýskeðu fagna ég ekki, enda Mafeking-andi af verstu sort, en ég er samt hálfglaður; hef samt varann á, geng við gikk...

Reyndar sé ég hér í bók Bjarna frá Hofteigi um skáldið, að Erlingur er fæddur 19. ágúst 1911, svo hann er ekki nema 95 ára. Ég ýkti aldur skáldsins í huganum – og þó, Þorsteinn fæddur 1858 (dáinn 1914). Það er mynd af drengnum hér, ásamt Svanhildi, systur sinni, þar sem Erlingur er kannski fimm ára og í matrósafötum. Hann býr víst í hverfinu; veit ekki hvort ég muni þekkja hann, mér skilst að nef og eyru vaxi útí óendanleikann. Mig langar samt í kaffi úr rósóttum bolla, dúklagt snobb og fátækt og bækur, for, eitt par af augum fyrir lífstíð. Þögn og stjörnur.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]