Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

þriðjudagur, mars 07, 2006

 

Searching back for the friends I've known,

sometimes sad for the way it's grown.
Changing up and ranging out,
and trying to change my ways about.

john martyn – just now

Fór ekkert, las bara.

(Um Ragnheiði og Daða, mjög þurra ritgerð með grúa af þjóðskjalasafnskóðum, eftir Guðmund Kamban. Ef ég yrði ekki að sofna, segði ég eitthvað; mögnuð saga. Ég þekkti ekkert nema Megas. Veit ekki hvort ég legg í fjögura binda Skálholtssögu Kambans – hef reyndar ekki lesið hann áður, – ritgerðin er heimildasöfnun hans fyrir það, skildi ég rétt.)

Mundi hversvegna ég gekk Skipholtið: Ég var hægra megin, hinummegin götunnar við listaskólann, og ætlaði upp Stangarholt, þegar ég sá ógnarstóran hund í alltof löngu bandi með mann í eftirdragi tilsýndar og albúinn að flaðra uppum mig, svo ég snarlega færði ég mig um set, skáhalt yfir götuna, með þá hugsun að ég færi í nýmynd (keypti kannski tilboð einsog í old days), og lenti við gullsmíðaverkstæðið, og áfram áfram áfram helvítis Skipholtið. Skipholtið sem ég bý við.

Hefði ég farið upp Stangarholt, þá hefði ég kannski gengið á milli Nóaborgar og hvítu blokkarinnar, þröngan gangstíginn og út á götuna sem ég held að heiti ekkert. Helga? Í húsunum við Nóatún sem þú áttir heima í, þekkti ég held ég einhvern í hverju. Ég hugsa stundum um það þegar ég fer framhjá, sem er oft, stundum oft á dag. Já, svo yfir móaskottið inná bílastæðið hjá kirkjunni og framhjá hinum, nýja leikskólanum, sem einhverra hluta vegna var “skírður” Klambrar, en ég vil meina að sé of fjarri, en samt of nálægur fyrir slíkt. Vatnshóll hefði verið mitt val; ég viðurkenni að ég tók ekki þátt í uppástungukeppni sem var haldin. Það örnefni hefði reynst betra, ma vegna þess að helvítis hóllinn er að hrynja af tönkunum, aukþess sem hann blasir við börnunum á leikvellinum. Og líka sjómannaskólinn, sem heitir eitthvað fansí núna, það stendur á skilti við Háteigsveg og hólinn; ég hefði sparkað að því. Einu sinni sagði ég túristum, aðspurður, að sjómannaskólinn hafi verið fyrrum sumarhöll sænska kóngsins. Þau skráðu það samviskusamlega í stílabók, skýringu við númer sem ég tel að tákni ljósmynd. Það þótti mér fyndið. En mér hefur líka fundist lengi skólinn með turninum vera höll, að það færi eitthvað konuglegt fram þar. (Þetta hefur ekki verið áður en stillansarnir voru settir utan um hann, ég man ekki eftir honum öðruvísi, finnst turninn núna orðinn of ber; væri ég enn yngri en ég er, þá myndi ég viðra áhyggjur af því að honum væri kalt. (Slökkva þeir á klukkunni á næturnar? Ég sé hana ekki, en á morgnana eru stundum tvö tungl á lofti finnst mér.)) Svo er byggingin of föl, mér líkaði svo vel við þennan pissubrúna lit sem grillti í bakvið stillansana. Eða var það efnið í þeim?

Ég hefði ekki farið út á Háteigsveg, frekar farið með skólanum og inní Hjálmholt, framhjá litla rólustæðinu í brekkunni. Þar sem ég hitti tvær stelpur einu sinni þegar ég sveikst úr skólanum og fór með niðrí bæ að éta stolnar pulsur úr Hagkaup í kjörgarði í piparsveinsíbúð á Frakkarstíg. – Eða ég hefði farið bakvið skólann, ég á eftir að skoða blokkirnar sem voru byggðar á túninu bakvið bakaríið vonda og Pítuna frá þeirri hlið. Það hlýtur að vera skrýtið að búa svona ofan í mannhæðarháum hömrunum.

Ég hefði sprengt botnlangann á Hjálmholti þarsem Valhöll blasir við og niður stíginn, yfir götuna og á milli bílskúranna inní garðinn á blokkinni, rakleitt að herbergisglugganum mínum og bankað, spurt: Hæ, hvað ertu eiginlega að gera?

Ég fór ekkert, en ég get það svo auðveldlega, ég á holtið.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]