daddy try to swing for me,
daddy play your strings for me.
She says: Daddy don't you cry for me,
daddy will you fly for me,
daddy go and try for me. john martyn – my baby girl
Lukkulegur með The Tumbler og Sunday's Child, tvær aðrar John Martyn plötur, báðar mjög góðar fyrir sinn hatt, en mismunandi báðar. Og lukkulegur líka með bunkann sem ég sótti á húðflúrsstofu hér í bæ; það tónlistarlega uppeldi mistókst að fullu. Townes, Fried Julian Copes og fleira gott sem ég hef ekki heyrt síðan í haust.
Reyndar settist ég svo á hauginn í gærkvöld, þegar ég var að forða sjötommunum mínum frá bráðum bana. Það fór allt vel. Smáskífurnar lifðu allar – þó sumar séu hálfdauðar, svo rispaðar – og diskarnir líka. Ég kenni þyngdaraflinu um þetta Chaplin atriði, og hálfbjánalegri hönnuninni á smáskífu rekkanum. Aukinheldur eru mörg umslögin svo rifin í allar áttir, að hvernig sem ég snerist, virtist ekkert geta fært okkur í réttstöðu byrjunarinnar er ég greip um þetta flikki til að færa.
Rekkinn er númeraður að neðan, ég man ekki hvað er hvað, ekki fyrir mitt litla líf. Mig óar fyrir, að ég verð að fara gegnum þær aftur. Og aftur. (En gleymnin er uppgötvun morgundagsins, það var ég að ákveða, svo ég græt ekki götin.)
Fann hjá Braga í bókavörðunni, bækling eftir Jochum M. Eggertsson, eða Skugga, sem heitir Syndir Guðanna, þessar pólitísku. Hann er frá 1933, og miðað við baksíðu “auglýsingu” frá honum sjálfum, virðist Skuggi aðhyllast þjóðernislega jafnaðarstefnu. Haha. Enn betra er þó ritverkalistinn, en þar er talið upp allt er hefur komið út eftir Jochum, og líka allt sem hefur framað þessu komið út eftir Skugga. En svo virðist líka sem þeir hafi gefið út eina bók saman! Sjálfið og aukasjálfið! Ó togstreita! Það er einsog Calvin Broadus gæfi út plötu um fróun heimilslífsins, en Snoop Doggy Dogg ryddist inn til að hylla gras og kók, og frjálslegt kynlíf með allra handa hórum þessa heims! Og það kæmi út undir báðum nöfnum!
Á Sunday's Child er eitt lag, sem mér finnst eiga við í á þessum hálu brautum sem ég kominn á. Platan, einsog nafnið gefur til kynna kannski, finnur sér nokkurn tíma til að fjalla um börn (“just like my babies, we're born to cry”), eða barn, eitt barn. My Baby Girl er frábært, djassað en á þjóðlegu nótunum, sem er einkenni Martyn. Falleg orð til ungrar dóttur, og viðlagið étur mig, svo fallegt (vitnað til að ofan). En það er The Message sem ég vil tala um á þessum nótum.
Þar byrjar lagið á að tala til einhvers sem er að fokka upp lífi sínu, konu (Beverly Martyn), og ekki mikil jákvæðni til hennar – ég veit ekki betur en þau hafi skilið eftir þessa plötu. Nema það rennur svona fallega í eitthvert þjóðlag, hvar Martyn syngur til dóttur sinnar, þetta er barnalag, hann fullyrðir að það verði
plenty bonnie bairns as well í brúðkaupi Mhairi (sem er nafn barnsins). Og aftur í plokkið hans, hvar hann flytur hálfgert, finnst mér, vitriol til konu sinnar, en aftur inní vögguvísuna. (Þjóðlagsvísuna syngur hann með allt öðrum hreim.)
Heimilslíf á tveimur og þrjátíu?
>