Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

fimmtudagur, mars 16, 2006

 
Ösp, lítil og mjóslegin, um þriggja metra há, næstum lífvana af laufleysi, blakti milli fóta mér. Rakann í mjúku, mosaríku landinu saup jakki minn af nauðsyn, sömu nauðsyn og, held ég, rekur menn út í síestur á suðlægari slóðum. Köld jörðin snart mig einsog krabbi, breiddist út útum bakið, forðaði mér svefni; ég minnist þess þegar ég skrópaði í eðlisfræði og lá í móanum frá átta og uns frímínútna bjallan sló, einn, einn með sjálfum mér að spá í þessar fáránlegu aðstæður sem ég hafði komið mér í, utan þess að það kom til mín kona úr hvíta elliheimilinu og spurði hvort það væri ekki allt í lagi. Ég vissi það, þó hún segði það ekki, að hún hefði séð mig úr glugganum sínum, og innblásin níufréttunum, haldið að ég væri lík. Þessi kona var gullmoli og henni var ekki brugðið þegar ég opnaði augun. Nei, mig vantaði ekkert, og ég þakkaði henni samt boðið, og nú hugulsemina. Þó ég geti bölvað mér uppá að hún sé dáin.

Og í dag, útskítti ég hárið með vinnuvettlingunum og starði í flöktandi skýin, pældi aðeins í svona konum og öðrum Nefertitum. Það er ill mögulegt að gleyma þeim. Til mótvægis, eða kannski ekki, reyndi ég að geta barn með himninum. Og öspinni.

Milli laga heyrði ég í Sæbrautinni, þar sem hún þýtur undan brúnni og framhjá ónýttasta leikvelli jarðar, og í skjól húsbaka fyrir eina vogi Voga dags dagsins. Einsog tiltal frá þögninni.

Jörðin er belgur; tíminn belgdur til að bergja á, meðan það lekur meðfram á saumunum og tæmist.

Ég hugsa um öspina og iðnaðarhimin, jakkaboðin mín sem voru sem burstir á hvora hönd, einsog raunveruleikinn! Um öspina sem játaðist veröldinni og stendur enn. Enn, ein, í basli, í barningi, byltingu. Sem ég elskaði og reyndi að búa til nýjan heim með. Og um sálfselska pínu vosbúðarinnar, sem hefur það eina takmark að láta taka eftir sér.

Ég hugsa um og til allra aspa allsstaðar, bið heilsa á alla velli. Nú er ég hættur, brýni axirnar til að sanna það fyrir sjálfum mér; ég sný mér að stráum.


julian cope - safesurfer
Just another sheep boy,
duck call,
swan song,
idiot son of Donkey Kong.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]