Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

þriðjudagur, mars 28, 2006

 

“Svo og sá ég þar dverg og dyrgju, því þau eru þar

þar svo algeng í staðnum. Hann virtist mér ekki tvær álnir á hæð, en hún hálf önnur alin, hann bolstuttur og kloflangur með síðar hendur, sem tóku allt á hné ofan, svartur sem bik og með stóran haus, en hún var furðanlega digur, með stutt klof og langan bol og svo digra fætur.”

Í Langt út í löndin, utanfaraúrvalinu, sem varð áhugaverða því lengra sem frá dró Íslandi, var mjög fróðleg og skemmtileg ferðasaga: Í Barbaríið og heim aftur, lítð stytt, eftir séra Ólaf Egilsson, prest í Vestmanneyjum. Það er ekkert ártal á skrifunum, en hann er fæddur 1533. Presthjónin ásamt börnum voru tekin af Algiersmönnum í Tyrkjaráninu 1627, og hann sendur heim að fá lausnarfé fyrir þau. Hnyttilega er ekkert komið inná úrslitin, bara sorgarsögu Ólafs við að komast heim, það er í raun einsog hann hafi ekkert farið aftur að sækja restina af sjálfum sér! Kannski, og vonandi, styttingin (reyndar segir í stuttum formála: “[A]ðeins felld niður lýsingin á framferði ræningjanna í Vestmanneyjum, sem ritið hefst á, og sleppt niðurlaginu um dvölina í Kaupmannahöfn og ferðina til Vestmanneyja.”).

Frásögnin er sérlega sorgleg, en sérann dregur heldur ekkert af, ákallar drottinn títt. Börnin eru þrjú: veturgamalt stúlkubarn og annað mánaðargamalt sem bar til um borð yfir hafið og:

[M]inn fátæka son, ellefu vetra gamlan, sá gengur mér aldrei úr minni, meðan ég lifi, vegna skilnings og lærdóms, hver eð mér svaraði svo, þá hann var tekinn frá mínum augum og ég bað hann halda í guðs nafni að halda sinni góðu trú og gleyma ekki sínum katekismó*, þá sagði hann með stórum harmi: “Ekki, minn faðir! Þeir hljóta nú að fara með kroppinn sem þeir vilja, en mína sál skal ég geyma mínum góða guði.”
Við svo búið skiljast þeir, sjást ekki framar, og engin veit ég örlög drengsins.

Ég kallaði þáttinn ferðasögu, en réttar væri kannski sorgarsaga, vegna ansi nákvæmra og ágætra staðháttarlýsinga semog á siðum þar, td heitir einn kaflinn: Um fatnað fólksins og hverninn þeirra matdiskar og drykkjarker eru í þeim stað. Hann lýsir borðsiðum, sem hafa verið ansi ólíkir því sem hér var, enda barbarí, þar var etið “réttum beinum” á gólfinu.

Hann lýsir sterkum ösnum sem bera körfu með brauði fyrir kjaftinum, sem þau éta uppúr á ferð. Sama segir hann vera á hestum þeim sem hann sá, en þeir séu þó magrir og flestir notaðir til að draga kvernar og mala mjöl. Auðvitað hafa kameldýr sama útbúnað, en þeim lýsir hann mest. Þar kemur bóndinn í guðsmanni í ljós, finnst þau líkjast mikið nautum, td af lærabúnaði, en eyrun séu nær því sem á hestum og á löngum hálsi beri þau “ljótan haus”. Þau séu seinfær, en séu þau keyrð sé slegið um þeirra afturbein, en þau samt akta það engu. Tilvitnunin að ofan kemur strax í kjölfarið af kameldýrinu.

Eymdarreisa Ólafs hefst þegar hann hefur kvatt konu sína fám orðum, og orðið að kyssa hendur fangaranna. Börnin segir hann orðin dauðsjúk. Honum er fenginn passi á óskiljanlegu tungumáli öllum hér á Norðurlöndum og erkibiskupinum í Kaupenhafn, merking hans, er honum sagt, sé að hann sé sendimaður þeirra verði skip hans tekið og Ólafur þá ekki sleginn í hel. Hann segist eiga hann enn til sýnis. Hann kemst ekki nema til Sardiníu með því skipi sem Tyrkir setja hann á, þaðan kemst hann með harðfylgi og guðs hjálp, auralaus. Að endingu koma ýmsir góðir menn því til leiðar að för hans endar í Danmörk (“og þóttist ég þá svo og nær kominn til Íslands”), oftast fyrir sakir hans prestlegu stöðu og sorglegu sögu.

Ein íslensk kona fyrirfinnst í Marsilín (Marseille) og þau rekast auðvitað á, og það um dagsetur, þegar Ólafur hefur gengið beiðandi um alla borg og við það að sálast af hungri. Hún vill ljá honum hús um nóttina. En það vill ekki betur en svo, að einn hinna engelsku þekkti hann, sagði hann íslenskan prest og þá bregst þessi þjóðsystir þannig við, að hún skipaði honum strax út og vildi hrinda úr húsinu. Viðbrögðin er ekki útskýrð frekar en með þessari lýsingu á gerðum konunnar, það er þó tekið fram að þetta hafi verið víndrykkjuhús.

Einsog aðrir, hef ég heyrt sögur af Tyrkjaráninu, en ekkert lagt mig eftir þeim sjálfur, það gæti vel stafað af langvinnu óþoli mínu gagnvart eyjunum, og ég komst ekki svo langt heldur í Íslandssögunni! Eymdarreisan er meinholl, mórall enginn, orðaforði skemmtilegur – nýstárlegur mér amk! – frásögnin skemmtileg og stutt. Ég ætla að kíkja eftir þessum harmleik í næstu ferð.
...

Í dag kláraði ég að lesa Flygilinn frá Tsingtau. Þar er ekki flogið nema fyrstu blaðsíðurnar, og yfir hausamótunum á þeim gulu frá Japan í bardaganum um Tsingtau. Pluschov flýr úr miðjum eldinum, eftir marga fræga sigra þó, og flygillinn hrekst svo um sveitir Kína, til Shang-Hæ, smyglar sér á skip til Ameríku, New York via “St. Fransiskó”, með hjálp góðra Þýsk-þenkjandi manna. En í Englandi er hann handtekinn, og ýmsir fara illa með hann þar, vilja td ekki hafa hann í foringjafangelsi – sem er argasta hneisa.

Og þó, er hann kemst á slíkt hótel, í Donington kastala, en þar eru jafnvel rúm, þá flýr hann og kemst eftir mikinn barning til London. Þar fer hann huldu höfði, fátækur og lélega klæddur, spottaður og hæddur, einsog séra Ólafur nokkur hundruð árum fyrr. Lýsingarnar á “húna” hatri enskra eru kostulegar, aðallega fyrir viðbrögð Pluschovs sjálfs, en hann móðgast mikið fyrir Keisara sinn. Eins eru skráningar hans á fjöldamörgum tilraunum til að smygla sér á hlutlaust skip frábærar. Þær enda allar með því að hann verður að synda í Thems og kemst í hann krappann. Tilraunirnar ná líklegast 10; Thames er víðsjárverð!

En það tekst að lokum að komast á Hollenskt skip (einsog Ólafur sem Karitas flytur!). Endirinn er frábær, þar er Pluschov handtekinn í Þýskaland, óskiljanlega ásakaður um að vera spæjari og landráðamaður. Pluschov segir svo sjálfur frá því að, þarsem hann er leiddur af hermönnum, og þá undirsátum sínum, þegar tveir litlir strákar kasta í hann steinum og hrópa: Þeir náðu njósnaranum! meðan hann grætur gleðitárum! Snubbóttur endirinn er sigurviss. Ævisaga par exelans. Ég held að þessi, eftir smá úrklippingar, hafi ekki farið á bókabál Hitlers. Frekar að hún hafi blásið ungum aríum byr í annars hugrökk hjörtu. Ég fagna þýðandanum, flygils hugmyndinn er ansi góð, betri en flugstjóri.

Báðar hrakningasögur Ólafs Egilssonar og Pluschovs eru um margt líkar, þeir eru báðir, óhultir og sloppnir, mjög athugulir á umhverfi sitt. Hlutskipti þeirra var þó varla líkt, þó tel ég Pluschov væla meira, það er af þjóðrembing hermannsins. Eins hafði þessi fuglamanns upphefð hans, kannski ekki góð áhrif á egóið.

Það er einhver hugmynd sem umlykur báðar sögurnar, það er lögmál sem þær, söguhetjurnar, eiga sameiginlegt, en ég kem ekki fingri á. Ég þarf að athuga það betur. Nú ætla ég að fara að vinna að upphefð minni eða niðurfalli! (Ég nenni ekki að lesa þetta yfir, sorrí.)

Þegar ég las saman Birkiland og Mr. Blue, ævisögu Eddie Bunker, þá ætlaði ég alltaf að gera svona, svona smá samanburð. Því miður hvarf gleðin í öllum samanburðinum, hann var of! En það hefði verið gaman að eiga það núna, eitthvað ársgamalt, eitthvað frá þeim tíma.
---
* Katekismó: Eftir mikinn barning, við að gúglhæfa orðið á ensku, komst ég að þessu. Þetta finnst mér svolítið fyndin pæling, utanbókar guðrækni! Ekki gleyma katekismóinu þínu, fermingarbarn! Hér er fimmþúsundkall.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]