Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

laugardagur, apríl 29, 2006

 
Vaknaður til lífsins aftur. 100 ár. Það kyssti mig enginn.

Hælsæri á höndunum sem kneyfa. Suð í hjartanu sem heyrir. Plástrað vit og tvinna í augunum. Sullaveiki og mitt eigið Múlakaffi á brúsa. En þurr.
---

Wedding Present var góð, það hefði verið enn betra hefði ég þekkt eitthvað annað lag en Everyone Thinks He Looks Daft. Og enn betra hefði mér tekist það ætlunarverk mitt að sjá hvorki né heyra í Singapore Sling, það er óefað ömurlegasta band á Íslandi, ég hata það.

Siggi kom með mér. Ég borgaði svo ekki fyrir mig, með því að sofa af mér föstudagskvöldið, og þannig af 10da tækifærinu til að sjá hans Sprengihöll á sviði, en það langar mig til að sjá. Sorrí vinur.
---

Það er ansi mikill munur á hljóðheiminum sé ég bý í, nú þegar ég hefi tengt loks græjurnar mínar, sem hafa setið ónotaðar og fyrir mér á gólfum. Mig langar helst að fleygja litlu tölvuhátölurunum. Þyrfti samt að fá mér einhvern audiophíl í heimsókn til að ráðleggja mér um staðsetningu hátalara, einsog núna, þegar ég halla mér að skjánum, þá er sándið voða asnalegt og nálægt, en bara við að halla mér aftur, þá skánar það svo um munar. Og ég stari og dreymi of mikið í blámann til að þetta sé ósættanlegt.

Ef Rafgrein er opin í dag, þá ætla ég að kaupa mér plötuspilara. Það verður gaman. En aftur, þá verð ég að rótera enn meir til á skrifborði afa míns, það verður vesen. Troðið er það nóg fyrir.

Til að sannreyna þær, græjurnar, þá blastaði ég Marquee Moon, það var gott.
---

Á fimmtudaginn eignaðist ég mitt eigið eintak af Harmsögunni. Það var best. Helvíti gott eintak líka. Bókasafnið brosti við mér fyrir vikið, en bað um að það yrði lagað til í því, fannst það illa skipulagt og sundrað. Tek það á mig, þær raða sér ekki sjálfar.

Og fyrst magnarinn og kassettu-unitið eru horfin úr hillunum, þá er kominn tími á að raða betur í skápnum. Ekkert leiðinlegt, bara sætt verk; en veit samt ég mun falla í þá gryfju að blaða í bókunum, þannig mér verður lítið úr verki.

En Harmsagan og Skammir, þær verða hlið við hlið, og Gröndal minn á næstu grösum. Steinar Sigurjónsson. Magellan eftir Zweig og Ævisaga Árna Þórarinssonar. Brennu Njáls sagan sem ég fékk þriggja ára gamall og ber á brjóstinu. – Svo stara þær í hnakkann á mér og hvetja, ég er ekki frá því að þið getið kannski séð þær, ef þið pírið augun, kæru vinir.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]