Raunar úr lausblaðabunkanum, sem er kallaður Drauma minna dokjúment og er merktur '02 í hægra horni efst. Nokkuð lunkin teiking, þó ég segi sjálfur frá, sem ég hefi gert á titilsíðuna.
Þetta ónefnda ljóð sem birtist hér nú, það er að minnsta þriðja versjón, því það er vélritað og með nokkrum leiðréttingum og kroti í. Það var hipsumhaps hvernig ég fygldi minni eigin forskrift þegar ég svo skrifaði það nú upp fyrir ykkur. Það eru í bunkanum ótal versjónir og margskonar, ég valdi þessa, því ég man svo vel eftir einmitt þessari dagsstund. Ég var að vinna þetta haustið 2002, líklegast viku, plús eða mínus, frá tvítugsafmæli mínu. (Sem var haldið með svo miklu pompi og pragt að ég fór á nokk langan bömmer eftir. Munaði þar mest um ansi veglega gjöf sem mér barst undir kvöld í felum; vegleg en vó sama og ekki neitt. (Það er gott að hlusta á röddina og hjartað gala!))
Upphaf, og svo endi, birtist mér þegar ég vann að því vikulangt eða meir að grafa, eða vera ofaní skurði á Sæbrautinni frá drullumiðstöðinni, sem fleytir skít Laugnesinga útí sjó, alveg niður að Borgartúni (þarsem, sællar minningar, olíubílstjóri næstum myrti hóp af verkamönnum). Sjómegin. Gott ef það hafi ekki verið fyrsta snjókoman sem blés mér í brjóst.
Gregory Corso og önnur bítskáld, semog Einar Már (“apasjar”?) eiga auðvitað heima í þessu, – helvítis leiðinda viðkvæðið alltaf... – fer engar grafgötur, skurði, með það. Kom mér reyndar á óvart hversu mjög höfuð mitt hefur ekki gleymt þessu skrípi, því bitar og brot má ljóst sjá í Ég tala um borgina, sem ég birti hér í mars, eða lok febrúar. Amk sömu orðin, og það er orðið too much, mig vantar orð.
Það er kannski aðal liðurinn í þessum lið hér, Úr stílabókinni, að láta orðin hverfa þá úr minninu. Gjörið svo vel, en verið góð:
dúnmjúkt steigstu í frostbarinn moldarhauginn
úr yrjóttum himninum
snjókorn...
ó þú sem snýrð andlitinu uppúr skotgröfunum
haltu fast í sígarettuna – haldreipið
en gleyptu hverja reykögn
það búa Apasjar í háhýsunum
og taktu ekki þátt í debötunum
um tommur og rör fótbolta og pólitík
bítlana og bowie
spilaðu heldur á skófluna BÁRUJÁRN!
leitaðu eftir mynstri í malbiksbrotunum
að reglu í snjókomunni
leiktu að þú mallir moldarkögglana
köttaðu það í feitar línur
og snortaðu þig skítugan trylltan
taktu brjálað yfir stjórn gröfunnar
berðu ísköldu bakkóinu í funheitt höfuð verkstjórans
drullaðu yfir hefðir og venjur með öllu því afli
sem enn býr í brjóstinu
annars...
skítt með lífið og
hvernig fór fyrir háleitum markmiðunum
sem sjálfdauð koðnuðu
erfðagölluðum fábjánadraumunum
og fokktopp með blágráu ljóshærðu skuggana
sem steypast milljón kollhnísa yfir örþreytta tilveruna
við hvert aumt slag
þefaðu uppi saltbrennda steina varnargarðsins
og stökktu langlengst oní hvítfyssandi brimheimana
það hefst hvorteðer engin blóðrauð bylting
uppúr þessari blámörðu gröf:
taktu Sæbrautina – gufaðu upp...
...dúnmjúkt steigstu í frostbarinn moldarhauginn
úr yrjóttum himninum
snjókorn
>