>
Hugrekki er aðalskilyrði hamingju. Á hugrekki grundvallast viljafesta. Að öðrum kosti geta langanir manns aldrei hlotið fullnægingu. Raunverulegt hugrekki er ávalt að gagni; það hugrekki að horfast í augu við hlutverk lífsins. Sannlega hugrakkur maður getur bæði fengist við venjuleg og óvenjuleg viðfangsefni.
Kjarkmaðurinn skorast aldrei undan köllun vinnunar. Vandinn samfara félagslífi og ásthneigð verður honum ekki að fótakefli. Kjarkmanninum getur skjátlast; af þeirri reynslu lærir hann, en kjakleysinginn lærir oft ekkert af reynslunni alla sína æfi. Kjarkmaðurinn þorir að vera skeikull, kjarkleysinginn þorir það ekki. Kjarkmaðurinn er góður verkamaður. Kjakleysinginn liðleskja. Kjarkmaðurinn hefur fulla eiginreynd og er því tamt að gera það sem við á í hvert sinn. Þveröfugt er þessu farið með kjarkleysingjann. Kjarkmaðurinn hefur markmið og lýkur því sem hann byrjar á. Kjarkleysinginn hikar ávalt svo að ekki verður neitt úr neinu. Kjarkmaðurinn öðlast traust og vináttu. Hið gagnstæða er hlutskifti kjarkleysingjans. Mistök og örðugleikar auka kjarkmanninum afl og þrótt, en buga kjarkleysingjann. Kjarkmaðurinn er önnum kafinn – ekki yfir sjálfum sér – heldur yfir köllun sinni og tilefni líðandi stundar. Kjarkleysinginn er önnum kafinn yfir ástandi sínu – ógæfu sinni og glötun. Áhugi hugrakks manns beinist að sérhverju atriði mannlegs lífs eftir tilefnum. Aldrei gerir hann sig afturreka með vantraustsorðum: “Hvað ætli eg geti?” Við öll vandamál er rétta aðferðin: meira, meira hugrekki! Mælir hvers manns af hugrekki er mælir á andlegu jafnvægi hans. Hugrekki er máttarhugsjón lífsins. Með tilliti til þessa ber að haga öllu uppeldi.
úr Bernskan og lífið, eftir Jóhannes Birkiland, tímaritinu
Lífið, 1936
>