>
Nákvæmlega sex tímar og tuttugu fjórar mínútur síðan ég kom heim, kveikti á klukkunni.Raunar á ég þúsundkall af tíma inni hjá leigubílsstjóra sem talaði útí eitt, eftir dökkblautum götum, framleiddi óviðeigandi sögur, – og tók fyrir það. Ekki veldur mér borgin vonbrigðum, nei.
Dögun og nætur í höfuðbóli: einhverjar. Að vera í þessu bóli helmingsupplags síns og gerðar, genasulls og veru... það er ég enn að ákveða hvernig áhrif hefur. Pinkupons minninga minna er þaðan, Skátagil, Gil, -il. Húsin eru eins á litinn, marglit, glitra þess vegna ekkert, þau eru þannig. Ég geng í barndóm. Fyndið. – Brattur samt niðrí Borgarsölu, að fá ekki, uppfylla ekki. Hokinn bölverkur uppettir.
---
Nefnan, sem ég á meir og meir skap við, gaf mér Schiller sinn. Ég treindi mér Fagurfræðina, og las Aristóteles, Nietsche, Hume, Birkiland. Þessvegna er ég ruglaður. Goldinn tími svarar hugmyndum mínum með þreyttu bulli, samsoðnu úr óskiljanleik, misvel pússuðu. Legusárin eru með blaðsíðutali.
Þýðendurnir tveir tóku mig svo í sögustund á laugardag, það var óheyrilega skondið. Þeir eru ágætir. (Best var að sagan um rakspírana, var ekki rifjuð upp, þá hefði ég skammast mín til ösku.) Nefnan, hvaða dónaskapur er það?
Sögur þurfa áheyrendur, ný eyru. Mennirnir rotna, en hláturinn lifir.
---
Utan Fagurfræði Schillers, fékk ég gefins eða fann og keypti af bókum: Í reiðuleysi í París og London eftir Orwell, sem mig hlakkar til að lesa; Rokland og Plötusnúð Rauða hersins frá hinni mömmu minni, sem ég heimsótti; eitt hefti af Tening, með fimm örsögum Steinars; Gargantúa og Pantagrúl eftir Rabelais hræódýrt; og loks þrjú eintök af tímaritinu Lífið sem Birkiland gaf út (Þar af eru tvö það fyrsta! En líta öðruvísi út! Ef einhvern vantar...)
Söfnunar perrinn fékk fróun sína. Ís nostalgían líka. En, ó, hvað elliheimilin eiga ekki við mig!
Sautjánda óskin rættist þó, einhversstaðar, í einhverju mér huldu hjarta. Ég veiti vel þegar sá gállinn er á mér, ólaunaður og óheimtandi. Takk, næstu dagar. Gleðjist hin.
>