Gleymdi geirvörtu landslaginu. Landið er uppfullt af þeim, litlum sætum hólum. Einsog við lónið, þar sem hólarnir við þjóðveginn eru með litlum grasbrúskum efst. Og kríurnar og túristarnir mynda helminga sem aldrei ná saman. Mýmörg dæmi. Eitthvað tók mið af einhverju í sköpuninni, ég þori ekki að fara með hvort sé eldra eða hvort sé eftirlíkingin. Það má vera að sakleysi landslagsins hafi ummyndast í þessa gimsteina af minni eigin fíkn, en það er ólíklegra. Ég hugsa ekkert meira um brjóst en aðrir. Nema kannski undanfarið, þegar ég fór að taka eftir þessum ástarpungum náttúrunnar, að í áframhaldi duttu mér hin í hug. Þessi földu. Þannig er nakið sakleysi landsins mér kannski hugríkara en fyrr var, ég hefi hnotið um sannleika (fyrir eitt sjálf – engan annan, býst ég við). Þess vegna var það grín, að ég vildi sprengja af Búlandstindi toppinn. Í kvöld, mörgum dögum seinna, svalar móðurmjólk þess mér enn.
En djöfull er samt gaman að steyta á skökkum hellum, ganga inní ljóskeilur og úr, líta undan, bíða og þegja. Anda að sér bílljósunum. Og hugsa um brjóstvörtur. Þær sem þjóta um allt í innkaupum, kannski öllum heimi gleymdar. Og svo hinum, sem bíða uns maður kemur næst. Kannski ögn nöguð, en, og ætíð, alltaf til staðar.
>