Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, júlí 03, 2006

 

Going down to see her,

bring yourself and all that you might own;
she can give you the clues to all the seeds you've sown.
john martyn - walk to the water

Því er ekki saman að líkja, að sjá Lómagnúp á leiðinni austur og svo á leiðinni heim, þegar hann sker himininn, þetta ferlíki, og nálgast nálgast. Það er hálf misheppnað útsýnið af þjóðveginum, en það verður að sjá það að minnsta úr báðum áttum. Færi maður til dæmis hringinn norðurfyrir sæi maður ekki Seljalandsfoss. Nema maður notaði spæjaragleraugu. Eða keyrði sjálfur, og skimaði eftir með speglunum. Eins eru sandarnir ætíð tveir, og líklegast fleiri, ég þekki bara þessar sjónir.

Náðum í skottið, dratthalann, á Þórbergssetri í kvöld. Það var flott verður að segjast, mikið lesmál á spjöldum reyndar, – mest texti Þóbergs, – mikið af góðum myndum, en lítið um sig kannski, og bregður í raun varla nokkru óþekktu upp um hann sjálfan. Allt handbragð til fyrirmyndar. (!) Kannski ekkert til að gera sér spes bæjarferð þess eins vegna, en gott stopp engu að síður. Og loksins tækifæri til að virkilega stoppa á Halastæðinu, undir fjallinu. Minnismerkið um bræðurna þrjá var lofsvert, en ég hef brunað framhjá því margoft, það er bara kvalinn steinn. Kannski með skildi á, ég veit það ekki. Núna er hægt að drekka kaffi og horfa útá lónið og burstabæinn, án þess að vera einsog fífl á túngarðinum hjá einhverju heiðvirðu fólki. Og lesa Þórberg af rúðunum, djöfull skildi hann mikið eftir af orðum.

Á Stokksnesi steytir öldunum saman. Þær fara í krossa, til baka og fram. Björgin baðast löðri, sem rennur sem leysingalækir eftir skurðum þeirra og dölum, pússuðum gróðurlausum hlíðum, aftur niðrí sjóinn. Sjóinn sem skellur á hvor öðrum aftur og aftur. Þessar öldur og bárur eru lífsmark þessa botnlausa massa, hafsins sem umlykur eyjuna Ísland. Allsstaðar eru brimgarðar, sker, bæði stór og lítil, fjörur og sandar, brattir hamrar og ókleif björg sem slúta að hafinu, liggja að því, í því – og í stilltustu veðrum, sigla á því.

Inná Restricted Area, bakvið girðingu, var kind og tvö lömb. Eitthvert ratsjárappart svaraði ekki bænum mínum.

Öldurótið, sem er vanfært orð um þessa sýn, var einkar dáleiðandi, maður á skyrtu einni saman, gat leitt hugann hjá öllum kulda og áreiti vindanna á þessu annesi sveitarinnar. Ystu skerin, steinslummur, sem ég hef áður séð seli sóla sig á, plötuðu mig og þóttust hvalir. En það var, veit ég, ímyndun, sem stafaði af því að ég ímyndaði mér tugmetra háar sjógusur vera hvalablástur.

Það kom upp músamál í reykskotinu mínu. Ég sá bara þústina tvisvar. Það var ákveðið að egna fyrir henni, spenna upp gildrur – sem reyndust flóknar í uppsetningu. Múslaug mín, átta ára, táraðist og vildi ekki egna fyrir músinni, ekki hegna henni fyrir þennan glæp. Hún skilaði séráliti.

Það fór svo, að músagildrurnar reyndust múslausar að morgni; önnur þeirra reyndar fallin, og ostlaus, og múslaus. Það blikaði á fægða exina, geri ég ráð fyrir, í reykskotinu mínu mannlausu og múslausu eitt þungt augnablik.

Á Djúpavogi er annar hver garður með með ógurlegum fjölda garðdverga. Það er skemmtilegt að sjá. Einsog nágrannarnir hafi farið í stríð, einskonar meting um fjölda garðdverga á lóð sinni. Steini og Olli voru við eitt húsið. Aðrir voru svona frekar hæverskir í því að skera sig ekki úr, hvorki í stærð, steyptu brosi og augnaráði, né þá heldur skærlitavali. Kaupfélagið þar er líka auðn, konurnar þar kannski eigendur þessara holuleirmenna, stoltir kexkökueigendur þessarar ógeðfelldu andlegu eyðimerkur sem blasir við útum uppvaksgluggann? Kveikir kannski smáneista... einsog stormur í vatnsglasi. – Upp kom sú hugmynd að sprengja rétt aðeins rétt ofan af Búlandstindi, láta það leka oní Berufjörð og brúa. Breyta fjalli? Brúa? Þá held ég þeir segðu eitthvað.

En ekkert var að gert, og við fórum til baka inní Lón. Framhjá fallegasta kirkjugarði sem ég hef komið í, hann er nýstækkaður. Hvítur mannlaus krossinn á einu leiðinu bærðist í smávindi, hann var laus. Hafði þó samkvæmt öllu merkjum átt eiga uþb 7 ára afmæli í haust. (Á Höfn er reyndar líka mjög gott útsýni út kirkjugarðinum, mjög gott, sé skyggni.)

Fuglalífið er mikið á mýrlendinu. Og inspírandi.

Ég sá tófu, eða dratthala, í Almannaskarði. Hún var að læðast að tveim kríthvítum lömbum, en skaust kolsvört uppí bratta hlíðina þegar við hófum okkur upp á útsýnispall. Væta blóði góm?

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]