and I feel just like some lost ship at sea.
–
john martyn – One day without you,
and every friend I meet seems strange to me.
Við fundum blýant á opna svæðinu í Meðalholti; inngrafinni af henni, Einholti og Háteigsvegi. Eða “gamla útsýninu”. Hann er merktur Ikea, sem er viðeigandi, í mínu tilviki – enda brennimerktur álíka, sé farið út í gömul útsýni, á annað borð. Grófur í hendi, tel ég, en finn ekki sjálfur, svo hrjúfur.
Annað – númer tvö – sem ég skrifaði með honum var, Við fundum blýant á gamla leikvellinum í Meðalholti, miðja vegu milli brúarinnar og hússins.
---
Samúðarþel mitt, eða öfund, rak mig útí kringlu áðan. Þar hitti ég gamlan vin; þann sem fékk einmitt gat á hausinn á gömlu brúnni. Hann var ekki lengur lítill, var raunar orðinn stór, hávaxinn. Og heimilislegur. Í barnavagninum var, ég veit ekki, eins árs stúlka kannski, skynbragð mitt á þvíumlíkt er ekkert. Þá hafa allir þrír æskuvinirnir úr Meðalholtinu flutt á einhverjum tímapunkti í fokking Kópavog með barni. Sá litli reyndar átakanlega fyrr, en hinir, og ekki með barni en sem barn. Og ég hata Kópavog.
Óeigingirni mín fyrir samúðarkikkinu, gaf mér ekki mikið færi á að ræða eitt né neitt á venjulegsmannsnótum. Nei, stam og hökt jók bara á örtröðina, allt á fullt í hausnum af ósögðu. Ég veit, eða finnst ég hafa fengið Janúar-augun, hafa hrætt Sögu Guðrúnu.
Ó, þegar allt helst í hendur, hugsa ég á leiðinni heim, einsog í Skáldsögunni Ég! Ha, og það er allt svo ævi, ævi, ævi. Þú veist, þetta sem þú yrðir aldrei, né heldur ritaðir á notaðan pappír, hvaðþá heldur. Hvernig varðstu svona? og Hvað um... Því ef einhver var Walter – fyrir utan Volla, sem ég auðvitað þekkti aldrei að ráði, – var hann Walter. Er Walter. Er orðinn svo mikið Walter, að mig sundlar. Vá. Vá, einsog Ginsberg. Og manni finnst, bara finnst, maður svo rekinn í kaf, sokkinn, niðursigldur, grafinn einsog anker. Akkeri. Akkerið á sjúkradeildinni á Akureyri.
Nú vildi ég geta talað í saxafóntónum, svona fastur í þessum eina möskva, sem flísarnar þarna eru. Greinilega.
>