>
Eða, jafnvel og kannski enn svo frekast: Kæri háls!
Óregla er komin í hús. Semsagt tímarit á vegum Steinars, fyrsta tölublað frá 1962. Fallegt eintak, með heimilislegum blettum á breiðu, rauðu stöfunum á forsíðu. Svo að segja hvert pláss er útritað af Steinari, tilaðmynda innaná forsíðunni – að framan, og að attan. Nokkrar greinar, tveir bókarkaflar. Engin ljóð; nema mögulega tilkynningin í lokin, sem fyllir út síðasta bilið sem hefði getað orðið. Nei þessi veröld er troðfull af orðum, það hlýtur að þýða eitthvað, merkja einkvað.
Í liðnum Um efni þessa heftis, segir svo: “Það er alls óvíst hve oft eða á hvaða tímum ritið kemur út, en líklegt þó að útgáfan verði óregluleg, þótt það sé ekki eina ástæðan fyrir nafngiftinni”. Nei, hún hefur verið önnur; kannski hvetja sollinn til að líta í (“kogginn krefst mikillar einlægni og dýrð hans skilníngs...”). Það kom þó ekki annað tölublað fyrren síðarmeir, segir Bragi mér, tuttugu árum síðar, 1982. Það hefti er ekki á Gegni; það hefti er þá orðið hin heilaga gulrót, ljósið sem lýsir. 60 eintök segir Bragi vera til, hundraðogfjörtíu hafi verið brennd eða tætt, hent. Segist hafa dreift þeim fyrir Steinar.
Í sömu ferð varð ég mér útum eitt af TMM heftunum sem hann fékk birtíngu í, í því var leikritið Síðasti jökullinn. Á eftir að skoða það. En get sagt að hetjurnar tvær heita, ef mig misminnir ekki illa, Hans og Ásta. Það eitt og sér, lofar á gott(!).
Í Óreglu eru nokkrar greinar almennseðlis. Þær eru fyndnar, hann gerir þær það, eða: þeim það. Skrýtið að lesa hann, Steinar, um pólítík, finnst hann varla hafa haft tíma, til að hafa skoðun. Og þó, eftirfarandi dæmi sýnir, kannski ekki neitt, nema bara hlæhlæ og híhí, en samt – og mér finnst internetið eiga þessa málsgreins skilið, að þessir stuttbuxnar eigi heimtingu á að þefa hana upp – mér finnst hún heit, sönn, á einhvern hátt fimmtíustig, hnífurinn í fokking kúnni:
Stjórnmálamaðurinn, með hjálp drullugra blaða, er að gera sig of eða óeðlilega stóran – og þarf ekki mikið til ofsins – því hann er í flestum dæmum gosi sem komist hefur í feitt af röngum forsendum; ekki vegna þess að hann skilji þjóð sína, sögu hennar og menníngu (þótt hér séu auðvitað undantekníngar) heldur fyrst og fremst að hann er í Flokknum, það er tryggíng – og að hann er hjónabandsmaður, matfíkinn, graður, með taumlausan uppstillíngarhasa. (Hvað gerir hann ekki fyrir frúna – eins og hún er myndarleg hún Stína –, Gunnu litlu og Jóa? Flest, líklega. Gerirðu það ekki babbi? Sjáum nú til!)
Þjóðina vantar heimili, bls, 10.
Með öllu hinu, auðvitað. [Ó! heilagan debatt, með hnefum, takk.]
Annars lýst mér síst vel á pólítíkina hans: hversvegna er allt besta fólkið, einhverjir súrir, gallsúrir og fúlir djöfuls þjóðernissinnar? “tímarit fyrir íslendínga”? (– Annars er annar undirtitill líka: “tímarit um bókmenntir og menníngar mál” – nokk ruglandi, þannig séð, væri maður að eltast við undirtitla.)
Bókarkafli, sem heitir svo, er slitur úr týndri bók, fyrirhuguðu framhaldi af Ástarsögu, fysrtu skáldsögunni, með hið fyrirhugaða nafn Þar sem skatan er dregin á land. Steinar segir að hún sé týnd, sitji á botni Kaupmannahafnar, sjö fullskrifaðar stílabækur. Í slitrinu er þessi elska hér:
Aumu spilafélagar. Það liggur satt að segja við að mér væmi við þeim sem ekki finna hvað ég er að fara; það hlyti að vera aumi andans kalkúninn sem ekki fyndi nokkurn keim af sjálfum sér í þessu, slitrur sem týndust, eitthvað; ég bið ykkur að afsaka; því drengir, hér er sleipt á orðunum. En svei mér þá ef ég held ekki stundum að sé sé kominn frá apa þegar ég hugsa þetta. Að minnsta kosti umhverfist ég í sólbaði; fer að umla og skrækja. Ég er alltént mjög háskalega lofthræddur. Stundum verð ég afar glaður af skáldskap. En hann er ekkert nema skríngi sem skoppa saman í hugmyndir, sögur, einfaldan stórfurðulegan skáldskap. Og hann blífur. Hann er það eina sem mér finnst nokkru máli skipta þá stundina.
Skáldið er þakið hrossamóðu af Pekasusi!
Skál!
Einn fyrir afa!
Er á ömmu!
Og ég!
Og svo?
Bókarkafli, bls. 22.
Það gætu jú liðið tuttugu ár alltaf. Án þess ég hafi í hyggju að hverfa, þá kveð ég. Óreglan er orðin að reglu, en mig langar að fara þennan veg, heill í öllu. Hverju brosi, tilliti, smæli, flökti. Fokk, gæti jafnvel beðið fyrir því; ljósið er ekki einkver helvítis bæklingur, það er bara gulrót, eða nammi gegn sjálfsmorði. (Skilji ég Camus.)
>