Manstu eftir kúrekastígvélunum? Þegar ég var að baksa við að koma þér úr þeim um hánótt? Og hvernig gastu hlegið svona rosalega, að þessum líka brandara eða hittó – örugglega vakið upp allt pakkið á stigaganginum, – en svo verið einsog dauður, liggjandi á bakinu, bítandi í kinnarnar og umlandi? Á stigaganginum!
Þú varst í hvítum, of þykkum bómullarsokkum.
Ég sat við hliðina á þessum skrokk þínum og fór úr skónum, beygði mig fram og lagði þá við þína hjá ofninum. Og þú varst sofnaður. Og ljósið slökknaði með lágum smelli, hárið fyrir augunum og skópörin hurfu. Tíminn var úti. Mér fannst ég ein á breiðum velli, ég hefði allt. Ég var blind og þráði ekkert.
Lyklakippan reis og hneig á brjósti þér þegar ég barði á dyrnar krepptum hnefum; það rétt stirndi á silfraðar inngönguleiðirnar sem ég stakk af frá þegar ljósið skar myrkrið ófeimið. Ég sá það, rétt komin neðst í stigann, eitt langt augnablik: Nágranni þinn gapandi: Óneinei, þetter ekki minn sonur! hugsaði sú gamla.
Og ég er enn soldið sorrí yfir þessu, en mér fannst það samt svo lógískt að þú byggir á efstu hæð. Þó þú sért þessi kjallaratýpa, ég sé það núna.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]