Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

föstudagur, september 01, 2006

 

So this is where I ran for freedom;

where I may not be free.
tindersticks - city sickness

Manstu, þú klæddir þig sérstaklega, og með mikilli viðhöfn, í gamla gönguskó af mömmu þinni? Græni jakkinn lá þétt við líkamann, eitthvað sem enginn tók eftir þá, auðvitað, – hann var bara þröngur. Man þig munda byssuna á stigaganginum, athugandi miðið. Rifillinn svo mikilfenglegur á öxlinni, – ég dáði þetta happ þitt, – hann bar við himinninn hærra en Hallgrímskirkja, þegar við ösluðum fram Lönguhlíð eftir kyrrstæðum bílunum og fólkinu sem beið inní þeim. Langaði okkur ekki til að skjóta það?

Minns á útopnu, spenntur, með hvellhetturnar* á hraðbergi; hinar skotnu í munninum, japlandi á púðurhljóðunum. Það er nefnilega svo gott bragð, barbíbleik. (Þessi gamla gleði, einsog kögglarnir að morgni, fatahrúga og sofandi aðskotahlutur sem lyktar einsog Janis Joplin í dag-tíma... Hefðum við nokkurntíman trúað því, samt?)

Skammbyssur í buxnastrengjum milli húsanna... Smalað í litla SAS-deild; sunnan Miklubrautar og ljósanna, var bakgarðahelvíti Hlíðanna, skeyttum því engu og sníktum í strætó af blindingjum og gömlum, ferðir sem aldrei voru farnar nema í leiknum. Takk fyrir allt bland í pokað, lífeyrisþegar! Skæruliðarnir eru jú orðnir feitir og saddir af nammi, en, guð, þetta svikna, það var það langbesta.

Revolverinn of stór til þess að fela; og með spenntan gikk líturðu hvorki til hægri né vinstri. En sénsinn einhver keyrði mann niður. Silfurgrá paradís með súrefni og plastskefti, það var veröldin.


Það loddi við skóinn að þar væru perrar. Drápum þá sem við sáum. Það loddi við skóinn þegar eðlið sagði til sín og kallaði inn í mat. Inn upp og innar. Lyktin loddi við holin í nokkra daga, en maður bara þvó af sér sígarettuilminn. Já og amen við misvondum matnum...

Og perlan snýst samt enn, félagi. [Í nótt fer ég og gái þær annaðhvort útgrátnar eða þá bara niðurrigndar, túpurnar okkar, það skiptir höfuðmáli fyrir minningargreinarnar, veist það jafnvel og ég: hversu dreymd hún virkilega var, eða ekki.]

---
úr a work in progress kvöldsins
---

Pirrarmigaðþaðséómögulegtaðhafainndregnarlínur.

* Þarna reddaði Stafsetningarorðabókin mér! Há-ið pirrar mig samt, þrátt fyrir allt átorítet þyngdar sinnar, sem er engin, og tíma, merkilegt nokk þyngri en þyngdin. Þe bókarinnar.

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]