Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

laugardagur, maí 26, 2007

 

Í gær




Í garðinum hennar tók ég gröf, grátandi. Hjó á rætur trjánna, gróf dýpra og dýpra; mokaði í haug og mokaði yfir. Svo lagði ég stein úr gröfinni á leiðið og reykti.

Við fengum hana í desember, fjögurra mánaða, hálf persneska og mjúkari en mjúkt. Allan fyrsta daginn og nóttina eftir, lá hún undir rúmi svo leið og reið. Tvö stingandi augu í mykrinu, alls fjarri seilingar. Mig hefur ekkert tekið sárar, nema þetta, nema núna. Svo loks skreiddist hún fram og til okkar, kelin og góð, loðin og mjúk. Og varð ígildi heimilisins. Það sem það snerist um, fannst mér.

Hún vakti aðdáun. Við stóðum oft saman útí hurð, og fólk spurði: Áttu þennan kött? Hvað heitir hún? Flóvent þessa dagana, svaraði ég kannski. Margoft sá ég fólk beygja sig niður að ruslatunnunum, þar sem hún átti sér skjól, og reyna fá hana til sín með öllum brögðum.

Kisan með þúsund nöfnin. Hún, sem lifði ekki eitt einasta sumar, sem einhver keyrði yfir í dag...

Ég grét ekki fyrren ég fann allan þunga hennar í pokanum – öll hún – sem nágranni okkar í risinu, hann Högni, rétti mér. Hún var svo lítil! – hvað annað gat ég sagt? Þegar gröfin var til þurfti að taka hana úr pokanum og flytja yfir í kassann. Stirðnuð, einsog hringandi sig saman, hafi hún tekið mót bílnum til að vera lögð í kassa. Ég legg ekki í sárið, þorði ekki að leita að augum hennar, gat ekki haldið á henni. Áður en þessi síðasta ferð hennar hófst reif ég illgresið umhverfis, sem atast hafði blóði, og fleygði á botninn. – Alltaf, stutt orð... Kötturinn með þúsund nöfnin, ekkert annað gat skilgreint hana, ekkert nema jörðin.

Og þá er dagurinn dagur endaloka. Magic and loss. Töfrar og tap. Við sitjum eftir, á gati í tilverunni og tilgangslausar hendurnar með síðum. Með greiðu en engan feld.

Hjartalaga stein á leiði.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]