Varð fyrir hálfgerðri gíslatöku á tattústofu í gærdag. Einhver útúþví beyglaður djönkari hentist inn og króaði okkur tvo af í horninu þarsem við sátum að spjalli. Fyrst, held ég, var fílíngurinn bara svona nett pirr, það nennir enginn að díla við svona lið. Síst þegar það er í rússi. Þetta grey bullaði og bullaði drafandi röddu, þurkkaði ímyndaðan svita af enninu í gríð og erg, skimaði bæði út á götuna og inní stofuna. Það varð að fullvissa hann um að það væri enginn annar þar innaf.
Hann fnæsti eimað!
Það var ekki fyrren ég sá sprautuna sem hann hélt um í vinstri hendi, fulla af blóði og óvarða nálina, að ég varð hræddur. Held barasta ég hafi ekki orðið svona hræddur nokkurntíman. Ekki langa lengi, svo er víst. Í sjálfu sér var hann ekki að ógna okkur neitt, en það fór ekki milli mála að þetta var vopn. Og, hann sýndi hana – held ég, þetta er ekki alljóst fyrir mér, við félagi minn sáum hana amk báðir á sama tíma. Eftirá, nefndi Búri, fullkomnlega lógískt, að í raun hefði það alls ekki verið eins stuðandi, hefði þetta verið hnífur. Það er bara hnífur.
Hversu lengi þetta stóð, veit ég ekki, virkaði bara einsog heil fokking eilífð (auðvitað). Ég var stöðugt með hugann við hvað gerðist ef einhver kæmi inn. Ef síminn hringdi. Hann fokking legði til okkar! Gripi ég – gæti ég! – gripi ég stólinn og beitti honum? Hefði það eitthvað að segja? Osfvr.
Gæjinn var á mjög dubíous kokteil. Uppers og downers, plúsum og mínusum, líklega morfíni og spítti eða kóki. Hann hrópaði einu sinni upp yfir sig: Afhverju finnst mér einsog allir séu að elta mig? Og talaði eitthvað um að allir væru hræddir við sig, í einskonar spurn. Það var svarafátt. En catchphraseið hans var: Þetta er ekkert fyndið, ég veit að þér finnst þetta fyndið, en þetta er ekkert fyndið. Það sagði hann glettilega, einsog ógeðs-elstibekkingur frá því í gamla daga, enda fylgdi það bara “sögum” eða hugmynd, sem fyrir kurteisis sakir djöfulskallaði á bros eða hláturkurr.
Annars gat ég lítið fylgst með. Hugurinn við hjartað og lífið, eða þannig. Loks kom sólskinsbreik og við vorum aftur einsog áður. Hendur mínar skulfu ekki lítið eitt heldur mikið, það gat ég reykt niður, og loks sagði ég: Ég ætla uppá Laugaveg þarsem ég er seif, og hljóp framhjá Braga, þangað sem ég ætlaði mér alltaf.
Skömmu síðar, í góðra vina hóp, fóru axlirnar á mér að stífna og eru það enn. Það er fokkt. Fokkt að hafa líkamlegan fylgifisk hræðslu. Þá er hún einhvern veginn enn, hræðslan, þó hún sé löngu farin og búin.
Reyndi strax í gær að skrifa um þetta, fyrst færði ég of mikið í stílinn, bullaði upp observasjónir í drullulangt mix; svo reyndi ég við lögreglulýsingar og Gerplustíl, það var vel ólæsilegt. Les þetta yfir í kvöld – gæti því vel breyst. Vildi bara skrifa mig frá þessu, þessum sjöþúsund slögum.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]