Nú er ég að lesa bókina sem hefst svona í þýðingu Þórarins Eldjárns:
Það fór um mig trylltur fögnuður þegar ég sneri aftur frá Gare du Nord-stöðinni í París eftir að hafa skilað þar af mér ástkærri eiginkonu minni, en hún var á förum til að sinna veiku barni okkar í fjarlægu landi.
Hér er allt afgreitt hratt, ég hef varla við.
Las Vögguvísu í norðurherberginu, fyrstu skáldsöguna sem ég hef lokið við í marga mánuði. Tók með Síngan Rí, þó stutt sé hef ég ekki enn haft eirð í mér til að klára hana. Las það sem ég nennti, allt það fjarlægasta, úr Langt út í löndin; þar var talað um jakkhálsa og tírdýr (að næturlagi á Lækjartorgi má sjá slík eintök). Gísli á Uppsölum skrifaði svo svæsinn eineltis prósa að ég varð að leggja hann frá mér. Einhver verður að lána mér Bréf til Maríu, sem ég komst ekki yfir að klára. – Annars er ég kominn heim fyrir einhverju síðan.
Einnig fann ég Harmsögu okkar aldar, hún er eftir höfund sem ég met mikils þessa stundina og hefur skrifað merkar bækur og greinar, skáldskap hinsvegar óintressant. Einar Braga, Þá var öldin önnur, og fleiri héraðssögutengt efni og litið í Árna Óla. Eins las ég endurminningar sr. Rögnvalds Finnbogassonar á Staðastað. Trúin, ástin og efinn minnir mig að hún heiti. Það er nokk merkilegt að afi minn tók við af honum fyrir austan, en sonur hans og móðurbróðir minn tók við á Staðastað þegar Rögnvaldur lést.
(Á sama stað fyrir ári las ég hinsvegar eitthvað af endurminningum sr. Gunnars Benediktssonar, annars kommaprests. Þessar prestasögur eru í hillum prestbústaðarins, ég er ekki að bera þetta inní hillurnar til mín. Og þó, ég gæti amk mælt með Rögnvaldi.)
Göngutúrar: engir. Nema út á tröppur. Afköst: í lágmarki – eða hámarki.
Allt um það, gott. Svo gott, að nú hef ég tekið einhverja djöfulsborgarasóttina og er einkar lífhræddur þessa dagana, dagfarslega sýni þó engin svipmerki: ég er brosandi trúðsplaggat á hrjúfum vegg.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]