"Aðfararnótt 9. október las ég í Áföngum Sigurðar Nordals greinarkorn um Guðríði Símonardóttur, Tyrkja-Guddu, eiginkonu Hallgríms Péturssonar. Var Sigurði þar í mun að rétta hlut hennar, sem gegnum aldirnar var úthúðað, í þjóðsögum sökuð um ýmsa alger óhæfu. M.a. fávíslega um skurðgoðadýrkun, hún hafi hatast við sálmabröltið, jafnvel stuðlað að bruna húss þeirra og láti vinnumanns, með álagaorðum.
Það er niðurstaða Nordals, að lýðurinn hafi svert Guðríði, einungis vegna þess að Hallgrímur Pétursson hafi ekki verið nógu “hvítur”.
Þetta var mér ofarlega í huga þennan þriðjudag, fæðingardag Johns Lennons, kveikidag friðarljósssúlu konu hans. Svo rann upp fyrir mér ljós (!), er frú Yoko Ono var ötuð auri hvers konar í símatímum útvarpsins. Hvert atriði lýðsins stefndi í raun að því einu að hvítþvo minningu Lennons, afmá vankanta hans, hvers breyskleiki er einna best skrásetti sögunnar. Ono er, af fullri alvöru sumra, sökuð um að hafa eyðilagt Bítlana og svo plötur Lennons, sem í þessari bítlavídd jafnast fullvel á við að brenna fyrstu uppköst Passíusálmanna.
Margt er líkt með Guddu og Ono; báðar exótískar gagnvart mönnum sínum, eldri og lífsreyndari en þeir, töpuðu börnum sínum (í Barbaríið og kristinn sértrúarsöfnuð ofl.) Það hallaði á báða, Lennon og Hallgrím, væru þeir bornir saman. En þó við viljum halda minningu þeirra á lofti, á stalli, með styttu og öllu, þá eiga þessar merku konur ekki að vera “svartar” fyrir.
Skarpi, Baldursgötu 30"
Reit og sendi í Velvakanda núna í október, í flýti og inní formið – vil ég halda. Þótti fyndið. Það vakti enga athygli, hefði betur sett hingað og unnið betur úr því sem sameinar þær, en það var bunki, maður minn, langtum meiren kom fram í hratinu. Pétur Gunnarson tengir þær tvær saman ásamt Margréti og Hallgerði (bls. 195) og þá varðandi álit fólks á þeim, en setur sig ekki frekar inní málið (í textanum amk). Kannski veldur áhugaleysi en ég nenni ekki að setja mig aftur í málið og samanbera frúr.
Í [gær] kvöld er víst slökkvidagur friðarglætu, sem Erla nefndi svo, þá er mál að mæla.
[Sé ekki betur á sunnudegi, meðan flugvélar lofta sér og lenda með hvin í bak, að enn muni týra fölt útí rassgat.]
[Seinna: Og að kvöldi, ofan af reykþakinu er víst dimmt og ekkert kalt ljós, svo minnist ég þessa úr septembernótt: Ég elska slökkviljós og bíl-ós í fjarska.]
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]