Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, október 13, 2008

 

Um það hvernig fólk býr um sig í þrengslum...

nr.49

Svo hafði eg líka dálítið gaman af að athuga það, hvernig fólkið bjó um sig í þrengslunum á þessu langsótta ferðalagi. Í lestunum sængaði fólkið saman, konur og karlar, með góðum atlotum. Gott var í sjóinn og fólkið sjóhraust, er það vandist ferðalaginu. Reyndi það að veita sér skemmtun og fögnuð í því sem næst lá á einfaldan hátt. Margir höfðu dálítið í kollinum, og örvuðu áhrif Bakkusar blóðrásina og hitaði tilfinningarnar – a.m.k. um stundarsakir.

Ekkert vakti þvílíka eftirtekt á þessari löngu ferð á Flóru sem reykháfur einn, sem lá endilangur á þilfarinu. Hann átti að fara til Siglufjarðar, og var hann svo langur, að ekki þótti vel fara um hann í lest. Nú höfðu tvær blóðheitar ungfrúr búið um sig þarna í reykháfnum og flutt þangað inn sængurföt sín og annan farangur. Hlóðu þær kössum og koffortum fyrir annan endann, en tjölduðu fyrir hinn, eftir því sem verkast vildi.

Inni í þessum strompi var ærið gestkvæmt. Þó var ekki svo auðvelt inngöngu, því að menn urðu að skríða þangað inn á kviðnum. Af því fóru margar sögur, að stúlkuskinnin hefðu gaman af að fá sér hressingu með fjörugum piltum, þegar það bauðst, og víst var það furðulegt, hve þær entust við að taka móti heimsóknum.

Engum var tíðförulla þarna inn í þenna liggjandi reykháf en pilti einum háum og grannvöxnum. Hann kom í skipið í Reykjavík í nýjum dökkleitum fötum úr bezta efni, og var þá egghvasst brot í buxunum hans, en hálslínið skjallhvítt. Í þessum fötum var hann alla daga ferðarinnar. Hann var talinn búa í lestinni, en sást ærið oft skríða inn í strompinn. Þegar hann fór í land á Akureyri, voru nýju, fallegu buxurnar komnar í sundur á báðum hnjánum.

Komið var við sem snöggvast á í Vestmannaeyjum, en þaðan haldið í einum áfanga til Seyðisfjarðar. Á Seyðisfirði lagðist Flóra upp við bryggju rétt við hliðina á Pollux. Höfðu þessi skip tvö þá strandsiglingu hér við land, og átti Flóra að sigla frá Reykjavík vestur um til Akureyrar, en Pollux austur um til Akureyrar. Nóttina, sem skipin lágu hlið við hlið á Seyðisfirði, var slegið upp miklum dansleik á báðum skipunum. Var gaman að sjá stelpuskinnin í reykháfnum, er þær skriðu út til að laga á sér fötin fyrir dansleikinn.


Theódór Friðriksson, Í verum II bindi, bls. 522-23

Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]