"Er nokkurt dæmi þess, að leiðin til fullkomnunar hafi legið eftir þráðbeinum vegi? Mér finnst, að hún hljóti að liggja eftir ótal krókaleiðum og óteljandi villigötum. Ég gæti skrifað fleiri þúsund blaðsíður um axarsköft mín, allan þann bjánaskap og alla þá heimsku, sem ég hef gert mig sekan um. En ég hef haft vit á að læra af öllum þessum óförum.
Enginn gæti trúað því, hve mikil rola og vesalingur ég var á barnsárum mínum og unglingsárum. Ég var hræddur við allt og alla.
Sem átta ára gamall drengur var ég í skóla hjá Friðriki Friðrikssyni stud. theol. Dag nokkurn varð ég ásamt hinum strákunum að stunda heræfingar suður á Melum. Skyndilega varð mér bráðillt í maganum og hefði samstundis þurft að leysa niðrum mig og hægja mér. En ég átti ekki hugrekki til að ganga fyrir generalinn og segja honum frá þessu. Ég skeit í buxurnar. Menn geta hugsað sér líðan mína.
Þegar við marséruðum niður Suðurgötu mættum við háyfirdómarafrúnni, sem var á skemmtigöngu með sinni hjartansvinkonu fröken Kristínu. Generalinn skipaði okkur samstundis að stanza og heilsa að hermannasið hinni tignu frú, sem hrærðist mjög af þessum virðingarvotti okkar. Menn geta hugsað sér viðtökurnar hjá móður minni, þegar ég kom heim með buxurnar fullar..."
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]