“Bjarni hefir og strax í skóla hendt reiður á, og haft eðli með allt hvað markverðast var í náttúrvísi, og því tekið fyri sig þá lofsverðu en um of sjaldgæfu yðn og reglusemi, að teikna í Almanök sín allt það sem hann vissi viðbar og minnis var verðt; meðal annars finnst við árið 1745, að á Kérhóli í Eyjafirði fæddust um sumar-mála-leiti tvíburar, grónir saman á bríngunum og lífinu, vóru skírðir Guðrúnar, og lifðu fram á sumar.”
Þetta er þess verðt að rjúfa þögnina með. Það er saga í þessu, eitthvað kalt með gráti, votar hugsanir í óslegnu verðandi slegnu grasi. Kaldbjart. – Annars eru dagarnir hver öðrum líkastir og þannig svo ólíkir í hinu minnsta. Allt þetta frelsi sem mig dreymdi um, það skall á mér og ég skildi það ekki. Nú, þegar ég er að læra á það, erum við á förum suður í bæinn – sem er köld rúst, eða hvað.
Það hefur verið skrýtið að búa hér, svo fjarri atinu og reiðinni. Að fylgjast með fréttum eingöngu, búa í raun í þeim heimi sem ekkert markvert gerist; nema selur og svo selur; fylgjast með því sem Pétur Gunnarsson kallaði mér í nótt “uppákomur í Kúala Lúmpur”. Því það er það hér, hjá mér.
Annars rifjaðist mér allt fólkið upp sem ráðlagði mér að kaupa frekar, þegar ég tók litla íbúð á leigu, fyrir vá svo löngu. Sá veruleiki sökk í mér, hversu fokkt ég væri – einsog það fólk. Smá lamaður. En svo gladdist ég, ég er frjálsari en fuglinn.
Nú var ég truflaður, hjálpaði Erlu að ná í tíu leikskólabörn niðrí kirkju. Þau voru fín: Drekar kunna ekki mannasiði. Og þau svo lítil og fjöllin svo stór. Reyndi að velta ekki með tvö þeirra um koll – velti því fyrir mér hvernig það væri að alast hérna upp.
Hef verið að lesa bækur, sem í eru, ma, gullmolar einsog þessi: Sagnarandi þessarar bókar veit betur en ritarar sagnanna. Bókin er einskonar Framsóknar-testamenti í bland við að gera Þingeyinga vænni að langfeðgatali. Bóndinn er góður, og betur ættaður en þú hélst.
Þegar árið er liðið í reyk, sný ég aftur þangað sem fjöllin eru flatt við nefið, lærðari á frelsið. Og eitthvað segir mér að ég muni njóta þess enn meir. Burt úr leifunum og ruslinu, þynnkunni, mótmælendagengjum. Hingað sem eru engin umferðarljós og rafmagnið fer af og það verður kalt og bara lukkan að þú borðaðir snemma. Hingað sem mér finnst stundum vera bara ökugerði, myrkur fyrir bílljós. Módel bær. Hingað, sem er svo gott.
(Síðan á þriðjudag raunar – ég var truflaður aftur; það var söguvert, en... Komum suður fljúgandi í dag. Ég er stressaður og lítill, einsog alltaf fyrir flug og hnífsodda á svellum.)
Gerast áskrifandi að Ummæli [Atom]