Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, janúar 19, 2009

 

Þegar leiðrétting fæðist



22. maí 1979 varð blaðsíða 13 í Morgunblaðinu vettvangur fyrir gríðarlegar leiðréttingar – mjög líklega heimsmet miðað við orðafjölda. Í greininni Þegar bók fæðist, ræðir Sigtryggur Símonarson bók Gylfa Gröndal um Helgu M. Níelsdóttur, ljósmóður, Þegar barn fæðist, nokkuð í löngu máli.

Þau voru systkinabörn, svo það býður uppá málsgreinar sem þessa:

Á bls. 8 telur þú þig vera elsta ykkar systkina, er komust til fullorðinsára. Þetta er ekki góð sannfræði, þar sem Jónína systir þín var 6 árum eldri en þú og þið systur hélduð sameiginlega brúðkaup ykkar 1925.

Og:

Eins og þú efalaust veist var afi okkar, Sigtryggur, frægur vegna sjónskerpu sinnar. Það gleður mig að þú hefur hlotið meira en hans haukskörðu sjón, er þú í niðdimmri þoku (bls. 45) sást úr yfirsetu fjár í fjalli, ofar Æsustöðum, mörg hundruð metra leið, niður á Eyjafjarðará og virtist hún renna öfugt skeið! Reyndar segja mér kunnugir menn að þú hafir aldrei setið kvíaær, að næturlagi. Slíkt var engin venja og var Níelsi Sigurðssyni og Sigurlínu móður þinni trúandi til að þrælka svo kornungt barn sitt. Kvíaær voru yfirleitt setnar að degi, en ekki að nóttu.

(Reyndar hlýtur að vanta ekki í næst síðustu setninguna. Ætli það hafi ekki verið leiðrétt einhvern daganna á eftir. (Sbr og sjá aðra leiðréttingu á sömu síðu:

Leiðrétting

Slæm mistök urðu í grein Joachims Fernau í sunnudagsblaði, „Taktu lífinu opnum örmum", en þar segir á einum stað: „Þú veizt mér líkar tvöfeldni." Þetta á að sjálfsögðu að vera „Þú veizt mér líkar illa tvöfeldni." Sömuleiðis á setning, sem fylgir rétt á eftir, að vera þannig: „Ég var enginn engill, guðumlíkur einstaklingur er eitthvað óeðlilegur,” í stað „Ég var enginn engill, guðumlíkur einstaklingur er eitthvað óeðlilegur."

Og þegar þeir hafa leiðrétt fyrir Sigtrygg, hafa Mogga-menn kannski notað tækifærið og leiðrétt leiðréttinguna hér að ofan.))


Nú er að sjá hverju hin aldna ljósmóðir hefur svarað, hvort hún geti ekki fett fingur í ávirðingar frænda síns.


---

Nei, það er ekki að sjá að grein Sigtryggs hafi verið svarað af neinum, ekki einu sinni rædd í neinum föllum eða ákveðnum greinum. Má af því sjá, að ávirðingar hans eru réttar, eða kolklikkaðar. Það er annaðhvort eða.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]