Townes er bestur einn og sér með gítarinn, ekkert skraut, ekkert sem skilur þá að, mann og gítar. Afþví ég er eitthvað svo glaður, ætla ég gera lesendum þann greiða að benda á það sem ég rakst á, bara nú rétt í þessu. Það er upptaka af tónleikum Townes í Houston í Texas fylki, á bar sem hét eða heitir The Old Quarter. Hún tekin upp á einhverju herrans ári, sem ég bara man ekki, en er svo í sveit sett, að þá hafði Townes tekið upp allar sínar helstu plötur, nema kannski eina, hann hafði samið megnið af sínum fínu lögum – þó síðar fæddust nokkur meistarastykki. Og hann var enn ungur, fingur hans ekki marg-brotnir, heldur fullir af fjöri – röddin góð og mjúk, miðað við það sem varð. (Helst til lasts, má segja að hún byrji frekar stirt, með tveimur erfiðum sögu-lögum, en lagast strax með því fallega Don't you take it too bad, sem er auðveldara viðfangs.)
Það er raunar ekkert um plötuna að segja. Ég gæti sagt að það þarna séu kannski tuttugu fallegustu lög sem framin hafa verið. Að ég kann megnið af henni utanað. Að þetta sé ein af fimm uppáhaldsplötunum mínum. Að ég myndi bjarga henni úr eldsvoða. En, ekki er ég að selja hana, bara að bjóða hlutdeild í því sem heldur mér gangandi, hlutdeild í mínum heimi.
Kannski eru helstu meðmælin þau, að Erla syngur með, dagana langa. En hún syngur alltaf með. Auðvitað.
Hér set ég linka á tvo lög, hið nokk-þekkta Waiting around to die, sem er vænlegt til að græta stóra svertingja, og það fallega-súra Two girls.
Öll platan, topp fimm efni, er svo fáanleg á þessari síðu hér, hjá einhverjum góðgjörnum lækni.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]