Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

laugardagur, febrúar 21, 2009

 

Innréttinga-mús

["Your vision is your fate,
through long electric nights -
when a woman helps you write."

Boy]

Annars get ég svarið fyrir að ég lét uppvaskið ekki sitja á hakanum, nei, ég stóð ekki á skóflunni, lagði mig ekki í Stigunni, lék mér ekki með hrífuna, mundaði hamarinn, beit ekki í naglann heldur barðann og vaskaði upp.

Millisafnalán frá Eskifirði gekk ekki upp fyrir helgi, sem var meinlaust frá mínum bæjardyrum séð, en okkar ágæti bókavörður hér lánaði mér í staðinn úr sínum eigin skáp. Fékk bók úr bókaskáp bókavarðarins!


Varðandi innréttingar hér, sem Erla hefur gert skil, man ekki með mig, þá er það þannig, að hér var áður búð, sem seldi nýlenduvörur, langt, langt að komnar og ber þess enn greinileg merki. Flest ef ekki öll tól fylgdu, húsgögn og glös etc. og þannig er eilítið óraunverulegur blær á öllu, fjarlæg lykt. Við fluttum með okkur föt, bækur og diska, það var einn nokk-stór bíll (sem Tobbi ók, sé hann blessaður af tíglunum!)

Ég gerði þau fáránlegu mistök að láta Sigga té fá allan vínyl og setti plötuspilarann minn í geymslu. Það voru mistök að því leyti, að í raun hefði verið auðveldara að flytja þá kassa hingað, landshornana á milli, en uppá hvaða hæð sem það er hjá Sigga í hlíðunum. Eins er það svo, að aldrei á ævinni hef ég haft eins mikinn tíma og góða aðstöðu til að spila vínyl og þetta hálfa ár, sem liðið er. Sjálfsagt hefði ég spilað meira en það tæpa ár sem við vorum í innaf-herbergja búskap. Þetta fattaði ég svosum ekki fyrren eftir mánuð hér. Og ekkert væl með það. – Reyndar er eilítið skemmtilegt að geta komið til Sigga og heimtað spilun einhverra platna, með þeirri lógík að ég hafi ekki getað spilað þær svo og svo lengi. (Töluvert, sem ég átti bara á plötum, hef ég núna samt náð í stafrænt – og kemur á sama stað upp, hvað varðar sjálfan mig. Fátt fer meira í taugarnar á mér en vínyl-grobb eða rúnk. Það eru merkilegar týpur sem stunda slíkt, og efni í allt annan pistil og kannski lengri. Það er ekkert svalara að hlusta á músík af plötu en að lesa bók.)

...

Þetta segir í Biskupasögum um einar nafngiftir:

Þann tíma er stýrði guðs kristni Anakletus pápi, en konungar vóru yfir Nóregi Magnús Sigurðarson ok Haraldr gilli, þá var fæddr í heraði því á Íslandi, er Fljótshlíð heitir, Þorlákr inn helgi, á bæ þeim, er heitir at Hlíðarenda, á því ári, sem Þorlákr byskup Runólfsson andaðist. Eigi bar af því nöfn þeira saman, at hann var eftir Þorláki byskup heitinn, heldr af því, at sá, er allt veit ok öllu stýrir, vildi þá virðing gera Þorláks byskups ins fyrra, at hans nafn væri jafnan elskat ok dýrkat af öllum þeim mönnum, er síðan hefir auðit orðit at heyra ok vita dýrð ins sæla Þorláks byskups. Hefir almáttigr guð þá dýrð veitt nafni ins sæla byskups, sem fyrr sagði Salómon inn spaki, at betra væri gott nafn en mikil auðæfi, en þat var þá sannliga gott, er helgat var undir heilagri skírn, en blessat síða byskuplegri tígn.

Svona stendur allt í lífinu uppá hvort annað, hafi maður auga fyrir því. (Þetta er meiraðsegja frekar veikt dæmi.) Vekji einhver hugsun, sem maður þarf ekkert frekar en vill, að gefa gaum að, þá laumar bókavörður tímans að manni bók eða lætur í té, og þart stendur allt og meira til, meira kannski en maður vill heyra, um allt það sem hugsast getur.

Öll hugsun hefur hopað fyrir löngu, og er kaldari en jökull. Það skáldleg von samt, að eitthvað sé sterkt og grátt og ljótt, sem skeri sig úr, merji og meiði þá sem detta, rúlla hingað niður, alla leiðina. Gefi eitthvað til að plástra.


Og eru ekki sumar málsgreinar einsog byssur í laginu?


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]