Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

föstudagur, febrúar 13, 2009

 

Um það hvernig skal giftast, ekki

“Séra Arngrímur Bjarnason, er síðast var prestur á Álftamýri [sic], var heldur tornæmur í æskunni. Hann var 18 ár við skólanám, og eftir 8 ár fór hann fyrst að skilja hneigingar í latínu og gat allvel numið hana að síðustu. Hann erfði miklar eignir eftir föður sinn, enda hafði hann helzt í hyggju að fara að búa, er hann var útskrifaður. Þá fór hann að skyggnast eftir konuefni, því ekki var gott að byrja búskap með ráðskonu. Þá bjó á Melum í Hrútafirði Jón sýslumaður Jónsson, vel fjáður maður. Ein barna hans var Guðlaug [...]. Þessi kostur leizt Arngrími einna álitlegastur; hann hafði aldrei séð stúlkuna, en spurn hefur hann haft af henni. Hann skrifar henni því bónorðsbréf, er svo hljóðar:

“Innilega bið ég yður, elskaða góða jómfrú, að þér ekki álítið yður ofvaxið að taka tilmælum mínum um giftumál okkar, lofi guð, á næstkomandi vori. Af elsku til yðar vil ég sem hentugast er haga högum mínum; tvo þriðjupartana af Leirá byggi ég góðum ábúendum, en einn þriðja partinn, eða 20 hndr., ætla ég sjálfum mér til ábúðar. Yður elska ég mikið af góðri afspurn og óska strax að mega sækja yður norður að vori til að ráða fyrir mínu litla búi, því skuldabú vil ég ekki hafa. Þrjátíu spesíur nægja mér að láni með rentum hjá föður yðar. Lifið vel, yðar sannur og einlægur elskari.

A. Bjarnason. “

Bréfi þessu var aldrei svarað, og varð Arngrímur því að hyggja af þeim ráðahag. Hann kvæntist nokkru seinna fyrri konu sinni, Guðúnu, en þeirra samfarir urðu ekki góðar, og skildu þau. Síðan varð Arngrímur prestur á Stað í Súgandafirði. Undi hann ekki einlífinu og fór því að leita sér kvonfangs.

Á heimili hans á Stað voru hjón nokkur, er áttu efnilega dóttur, er Málfríður hét. Vildi séra A. fá hennar, en þær mæðgur tóku því fjarri. Þá var það eitt sinn, að móðir stúlkunnar var í fjósinu að mjólka. Birtist henni þá hvítur engill, er sagði henni með ógnandi röddu, að ef hún ekki gæfi guðsmanninum honum séra Arngrími hana Málfríði, þá færi hún til helvítis. Eftir það hvarf engillinn. Konan varð dauðhrædd, sem von var, og heldur en að fara í kvalastaðinn lét hún til leiðast og fékk talið dóttur sína á sitt mál.

Gárungarnir sögðu að ekki hefði verið sem hreinastur faldurinn á rykkilíni prests næsta sunnudag á eftir. Svo lauk að prestur fékk konunnar og áttu þau mörg börn og efnileg, sem líktust öll móðurfrændum sínum.“

(Sagnaþættir Fjallkonunnar Bls. 89-91)

---

Extra-póstur – nefnilega Smjörvitrun, sem svo:


Séra Arngrímur þessi sagði líka eitt sinn: “Fátækir eiga ekki smakka smér”! Eða panta sér pizzur, hvortsé með einu, tveim eður þrem áleggjum. – Arngrímur unir sér nú í Smjörlandinu góða, þarsem smjörkúlur falla af himnum ofan í smjörkúluland. Smjörlandið er mjúkt og gult, þar er gaman að leika sér í smjörlaug, renna sér á smjörbraut, róla sér í smjörrólu. – Smyrjið þunnt og það sem þér sparið, það fáið þér greitt, þótt síðar verði. Með smjöri. – Pína mín, þú sem verður að smjöri, helgist þinn andlegi plástur á brauði míns dauða.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]