úr Húnvetninga sögu
Jónas son Jóhannesar á Breiðavaði, vitur maður og bókvís, bjó á Sneis. Var hann góður drengur og fór að öllu öndvert fram því Ísleifur [sem var kallaður seki] bróðir hans hafði tamið sér. Hann átti Sigríði, rösklega konu, dóttur Vigfúsar, er kallaður var Þramar-Fúsi, og Valgerðar Jónsdóttur frá Skeggsstöðum. Jóhannesi föður hans hafði mjög þorrið fé og var hann nú kominn til framfæris á Ljótshóla til Sveins mágs síns og dóttur. En lítt þótti hann bæta ráð sitt því það var þá fyrir skömmu, að hann var staddur í Höfðakaupstað, að túskildingur hvarf við borðið. Kenndi sá Jóhannesi er misst hafði en hann tók að þræta fyrir og skammyrti þann mann. Við það fékk hann hósta og hrökk þá skildingurinn úr munni honum. Var við það bert hið sanna.
Og:
Þorbergur hét maður Árnason er lengi hafði búið að Fjósum. Hann var ertinn og þóttist lagamaður en lastvar og þó stundum orðhittinn en ærið kynlegur og svo voru öll systkin hans. Það er hér eitt til dæma talið um orðhittni Þorbergs að eitt sinn átti hann í þrakki nokkru við Guðmund á Spákonufelli, föður Davíðs hreppstjóra. Var það þá á þingi einu að Guðmundur brá Þorbergi um óþveginn skyrtukraga er á sást.
Þorbergur svaraði: “Hann er þó ekki af aumingja þeim er koltnaði út af í Spákonufells eldhúshorni, karlkind.”
Var það orðtak hans en hitt brigsli.
Og:
Það var eitt sinn að [Kerlingar-Gvöndur] skyldi fylgja kerlingu þeirri, er Guðrún hét, norður að Vatnshlíð. En áður hún færi stakk Ingibjörg kona [Bjarnar] prests köku í barm hennar en lundabaga í vasa hennar. En er þau komu á fjallið gjörðist veður drífandi en snær fallinn áður. Og er þau komu nær, er Víðivörðuás heitir, hratt hann kerlingu af baki í snæinn, þreif kökuna úr brami kerlingar en fann eigi lundabaggann, reið heim síðan og sagði hana dáið hafa á leiðinni. Kerling lá úti fjögur dægur áður hríðinni létti og kól til örkumla á höndum og fótum – og síðan kölluð tálausa – en fannst síðan því Gvöndur var sendur með öðrum að sækja lík hennar. Ætlaði hann hana dauða en á hinn veg varð. Reis kerling upp úr snænum, er hún varð vör mannanna, og mælti: “Guði sé lof að ég sé mennina.”
Lifði hún lengi síðan á vergangi. En Gvöndur bjó síðan að Meðalheimi á Ásum og var lítt þokkaður.
Þetta var ekki sú sem látin var hýða son sinn, það var Þórunn tálausa. Hún lifði þetta 50 árum fyrr.
Það er samt gott að muna – eða bara þekkja, það sem Hannes bestaskinn Jónsson sagði svo vel í Alþýðublaðinu 1963:
Það er ömurlegt að lesa ómilda dóma um látna menn og konur, sem lifðu í hörmungunum miklu. Og að lesa skop um þá, sem vanheilir voru, hafði kalið á líkama og sál, er þyngra en tárum taki. En þetta þykir fínt og fróðleikur nú. Gamla fólkið, sem ég þekkti í æsku minni leit allt öðrum augum á þetta. Það hafði sjálft reynt hörmungarnar og lært af því. Það dæmdi ekki dauða menn, né skopaðist að þeim. „Drottinn minn gefi dauðum ró," sögðu heiðnir forfeður okkar. Þeir voru vel siðaðir.
Ég er ekki nema rúmlega sjötugur, en í æsku minni sá ég konu, sem sautján ára gömul hafði verið dæmd á „Brimarhólm". Og harðneskjunni í málsmeðferð mundi enginn trúa. Nú myndu málsbætur ungu stúlkunnar verða metnar til sýknu. Ég sá fólkið, sem var veikt eftir hungrið 1887; og náði aldrei heilsu. Ég sá konu, sem hafði steikt og etið, vegna hungurs, sauðskinnið, sem hún ætlaði í spariskóna, en hún var þá vanfær. Ég talaði við menn, sem sögðust hafa etið skóbætur, og voru litlu eldri en ég.
Þannig var nú það.
1: bls. 729 III bindi - 2: bls. 423 og 3: bls. 344 úr II bindi. Sjá hér.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]