Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

þriðjudagur, mars 17, 2009

 

Frá Fjósasystkinum

Nú skal þess geta, er varð áður en sögnum er komið, að maður sá bjó að Fjósum í Svartárdal er Árni hét. Var hann kvongaður og átti börn. Voru synir hans Halldór, Þorbergur og Illugi en dætur Ingveldur, Guðrún, Þuríður og Ingibjörg. Halldór gekk um hríð í skóla, fór síðan í búnað og bjó að Núpi í Laxárdal hinum fremra. En eftir lát Árna bónda og konu hans bjó Þorbergur með systkinum sínum alllengi að Fjósum. Áttu þau þá jörð og höfðu erft hana. Öll þóttu þau afar einrænleg og eigi við alþýðuskap og á ærinn kynjabragur atferli þeirra öllu og engi líkindi á að þau ykju ætt sína. Voru þau Þorbergur og Ingveldur fyrir búinu. Voru þau líka mannblendnust. Ingveldur var mikil skartskona og mikið áttu þau systkin í smíðuðu silfri. [...]


Illugi var bæði stór vexti og sterkur en allra þeirra kynjalegastur. Þorbergur var lágur meðalmaður á vöxt, ærið fóthvatur en skorti mjög afl við Illuga.


Margar eru kátlegar sögur í minnum eftir Fjósasystkinum þó fáar verði hér taldar. Þorbergur reri suður á vetrum og var formaður. Það vildi nú til að maður einn skagfirskur, er Jón hét, barnaði Guðrúnu Árnadóttur. Fékk systkinunum það afar mikils og töldu glæp hinn versta. Tók hún jóðsótt á fjalli uppi við Fjósasel. Lagðist hún fyrir í laut einni. Þaðan var hún flutt til vetrarhúsa. Systkin hennar töldu þar jörðu eitrast hafa þar hún lagðist, tóku því ráð það að rífa hrís, slá í eldi og kyntu bál svo mikið í lautinni, að allur brann grassvörður af, og töldu nægja mundi fyrst að þar væri harðlent. En er Guðrún var heim komin kölluðu systur hennar hana umbúnað þurfa.

Illugi mælti: “Berið undir hana grjót og staura.”

Systurnar svöruðu: “Gáðu að því Illugi. Hún er þó systir okkar.”

Illugi mælti: “Til verra hefur hún unnið.”

Guðrún ól tvö meybörn. Dó annað ungt en önnur mærin hét Guðrún og varð fyrri kona Beina-Þorvaldar Jónssonar gartners Grímssonar lögsagnara á Giljá. [...] Varð Guðrún kyrr en síðan kölluðu systkin hennar hana Fortöpuðu-Gunnu.


Svo voru Fjósasystkin kynleg í hvívetna að aldrei gengu þau til Bólstaðarhlíðarkirkju nema sömu leið, að bæjarbaki. Var þar kölluð Fjósagata síðan. Svo var og allt annað atferli þeirra.


Illugi kom eitt sinn í kaupstað á ævi sinni og einu sinni suður. Sagði hann svo að aldrei sæi hann vitlausara fólk en syðra, kallaði menn hrinda þar fram og draga tréskeljar á sjó. Væru þær með fótum. Hefðu menn spýtur í höndum og skelltu með þeim á saklausan sjóinn. “Enn þeir bölvaðir skellir,” kvað Illugi.


Illugi var tilslettinn og hótfyndinn. Eigi kvaðst hann kalla Björn prest í Bólstaðarhlíð mannslegan: “Hann er eins og grettur köttur í framan, góin,” því það var máltak hans. Sagði og Illugi að eins væri að sjá Jón í Kálfárdal, bróður Bjarnar prests, sem illur andi byggi í honum.

Það var þá að kona Bjarnar prests ól tvíbura að Illugi sagði: “Svíðvirðilegur er lifnaðurinn. Henni nægðist eigi með eitt heldur tvö. Séra Björn má sitja með allt saman, góin.” [...]


Svo þótti Illuga vænt um skrautlegan fatnað að illeppa útprjónaða fékk hann eitt sinn hjá Hallfríði, konu Magnúsar í Vatnshlíð. Vafði hann þá í óbrúkaðan pappír og fundust þeir svo í kistu hans að honum dauðum. Lét hann það og oft á sér heyra að ærið væri til þess að hugsa að verða við að skilja fagran fatnað og eigulega gripi.



Drukknan Guðrúnar, Björn prestur glettist við Illuga


Það varð nú síðar að Fortapaða-Gunna drukknaði í Svartá. Fann hana þá skaddaða mjög bóndi sá frá Finnstungu, er Ólafur hét Sveinsson, og sagði til á Fjósum.

Sagði Illugi þá: “Hún var skaðskemmd og skammlega étin því á henni sátu sjö arnir.” Aðrir segja hann sagt hafa að “eigi væri hún sködduð en skaðlega væri hún étin og nóruð” og má vera svo færu honum orð öðru sinni, og enn: “Mér þótti verst hún brúkaði nýja hettu. Illa fór prikið, góin, en bakkurlið í pilsinu var spandur spánnýtt og sauðsvart, góin.” Og eigi vildi hann láta skipta sér af líkinu, kvaðst réttast að þeir hirtu er fundið hefðu.

Var Guðrún jörðuð að Bólstaðarhlíð. Þótti Fjósasystkinum afar reimt eftir hana, töldu hana ganga drjúgum aftur og gjörðu af margar sögur.


Illugi var fégjarn, hnýsinn og húsgöngull. Kom hann nú eitt sinn sem oftar í Bólstaðarhlíð og bað Björn prest að gefa sér lokaspánu. Gjörði prestur það, lét í poka þann Illugi hafði og batt hann sjálfur á Illuga að baki honum en kom áður eldkveikju nokkurri í spónuna. Þá Illugi var heim á leið kominn tók að loga í pokanum og brast við hátt er eldurinn tók höggspánu það með voru. Ætlaði Illugi það vera vofuna Gunnu, er riði á baki sér, og mælti: “Bölvaðir veri í þér hvellirnir, góin,” vildi eigi undan láta uns loga tók hár á honum og hann kenndi hitans. Skar hann þá á bandið því eigi mátti hann til þess ná að leysa og fleygði öllu frá sér, sagði síðan mörgum frá viðburði þessum en varaði Björn prest við að fara eigi einsaman síðla frá Bergsstöðum er hann syngi þar messu.



Frá Magnúsi og Illuga


Magnús hét maður Ásgrímsson er bjó í Vatnshlíð. Hann var skemmtinn og gamansmaður í orðum svo fáir voru á þann hátt. Það bar til, er réttað var á haust, að sauðamenn gistu margir saman á einhverjum bæ í Blöndudal. Voru þeir Magnús bóndi, Illugi á Fjósum og hinn þriðji maður skipaðir í eina rekkju. Magnúsi þótti þröngt og kvað það annmarka sinn að hann mætti geta jafnt börn við körlum sem konum ef hann samrekkti þeim. Legunautur hans annar kvaðst eigi kvíða því en Illugi kvað margt skeð hafa undarlega og batt um sig brækur sínar sem fastast. En er Magnús þreifaði síðan til brókanna hljóp hann í brott og kom eigi aftur. Rýmdist síðan í rekkju sem Magnús hafði til ætlað.


Það varð enn um Illuga er hann skoðaði klæði Ingibjargar er þá bjó að Svínavatni og skilið hafði við Pál prest bónda sinn, son Gunnars prófasts Pálssonar. Hún var systir Valgerðar á Böggversstöðum. Og er hann hafði skoðað um hríð á henni mælti hún: “Láttu nú svona vera, Illugi minn. Nú er ekki nema þunn léreftsskyrta milli lífs míns og handar þinnar.”

Við það hrökk Illugi brott sem hann væri steini lostinn.


Magnús bóndi gjörði sér gaman að hverjum hlut. Reri hann lengi í Njarðvík syðra með Agli bónda Sveinbjarnarsyni og var kallað að vel ætti saman gamanyrði þeirra og orðhittni. Á einhverri verferð gisti hann að Innra-Hólmi að Magnúsar Stephenssens. Hann var reifur við gesti og spurði menn að heiti. Duldu þeir þess eigi, nema Magnús frá Vatnshlíð kvað nafn sitt svo ljótt að eigi væri segjandi. Hinn kvaðst þó heyra mega og leitaði um eftir um hríð áður en Magnús sagði nafnið. Þá brosti Magnús Stephensen og mælti: “Þetta má margur hafa.”


Illugi á Fjósum vandi komur sínar að Bólstaðarhlíð og kom nálega hvern dag. Eitt sinn er hann kom fann hann Björn prest úti. Prestur var gamansamur og mælti: “Örindi áttu hingað því stúlka kennir þér barn.”

Illugi lést eigi trúa því. Í því kom vinnukona með reifastranga og kvað Illuga jafn sannan föður að barni því sem hún væri móðir. Honum varð bylt og mælti: “Far þú bölvuð og barnið þitt,” tók til fóta og hljóp út í Hlíðará nær ófæra. Sagði Björn prestur svo síðan að þá hefði hann mest iðrast eftir gamansyrði er hann hljóp út í ána. [...]


Það er og sagt hlægilegt frá þeim systrum Illuga með mörgu öðru, einkum Þuríði og Ingibjörgu – því Ingveldur var þeirra mannblendnust – að þær voru eitt sinn sem oftar í Fjósaseli og þar hjá þeim mær sú er Hallfríður hét, til grasa, er kona varð Magnúsar í Vatnshlíð. Villtist þangað til þeirra sveinn einn 11 eða 12 vetra úr öðru seli því þoka var á og fúlviðri. Ráðguðust þær systur lengi um hvað gjöra skyldi við hann svo eigi kæmi hann við þær um nóttina, því eigi voru nema tvö bólin. Lagði Þuríður þá það til að vefja hann í baklepp og bandi að utan og láta hann þar í hornið á selshúsinu. Ingibjörg kvað honum þar kalt verða og lagði heldur á móti því, kveðst heldur yfir honum vaka verða svo eigi mein að. Hallfríður lést mundu stinga honum niður undir hjá sér. Furðaði þær systur það mjög, báðu hana vara sig, mætti eigi vita hvað hann til bragðs tæki.


Margar eru slíkar sögur frá Fjósasystkinum.


(Húnvetningasaga, annað bindi, bls. 413-16 og 430-31)


...

Ekki mundi ég eða gerði mér grein fyrir að um sama var að ræða, því Þorbergur Árnason hefur áður komið við sögu hér, skyrtukragann skítuga, þar er í þetta:


Þorbergur bjó lengi með systkinum sínum og voru þau öll undarleg mjög. Lét Illugi bróðir hans þó athlægilegast, hafði viðbjóð mikinn á konum, svo ef þær þóttust vilja fara í rúm til hans af glensi hljóp hann út í hríðar og illviðri hálfnakinn. Hann var sníkinn og húsgöngull. Var hann og oft hræddur með þessu. En svo var hann forvitinn að hann skoðaði bryddingar á pilsum kvenna og allt skart þeirra mjög nákvæmlega við kirkju og hvar sem hann mátti.[...]

Öllu dóu þau systkin ógift nema Þorbergur. Hann fékk síðar Valgerðar dóttur Rafns prests á Hjaltabakka. Árni hét son þeirra, vesalmenni.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]