Maður hét Bergþór Björnsson, og mun hafa verið ættaður af Austurlandi. Hann var vinnumaður á Grímsstöðum á Fjöllum nokkru eftir aldamótin, og kom sér ekki vel þar frekar en annars staðar, því hann þótti óþokkamenni. Systir hans hét María. Hún kom sér alls staðar vel og var talin ágætis manneskja. Hún var einnig vinnukona á Grímsstöðum nokkur ár, og fór þaðan nokkru síðar en bróðir hennar. – Hin þjóðkunna hetja – Fjalla-Bensi – var Maríu samtíða á Grímsstöðum nokkur ár, því hann var þar vinnumaður. Þá sýndi hún hvílík ágætis kona hún var. Fjalla-Bensi var þá nýlega skilinn við Kristrúnu konu sína. Hann var því eðlilega mjög þurfandi fyrir kvennmannshjálp, en María bætti úr því, svo sem bezt mátti verða, enda var hún þjónusta hans. – Heyrt hefi ég, að hún hafi aldrei gengið í hjónaband, en hinsvegar búið lengi búi sínu á Hringveri á Tjörnesi, og er þar kannske enn, þegar þetta er skrifað.
Eins og áður segir kom Bergþór sér hvarvetna miður vel. Hann þótti hrekkjóttur og óábyggilegur, og gat verið illskiptinn. Ýmsar sögur gengu af honum eftir að hann fór af Fjöllunum, og skal hér sögð ein sú saga, en þá var hann vinnumaður á Grímsstöðum.
Eitt haustið var hann sendur í göngur í Búrfellsheiði, en þær göngur taka tvo daga, og er gist um nóttina í Hvannstaðakofa. Fjallamenn búa sig jafnan vel út með nesti, er þeir fara í göngur, betur en nokkrir aðrir gangnamenn, sem ég hefi þekkt. Matur þeirra er bæði mikill og góður. Þegar þeir höfðu smalað fyrri daginn, og allir voru seztir við nesti sitt í kofanum, þá laumast Bergþór upp á kofann og mígur niður um strompinn. Þar sem hér var um óþokkabragð að ræða, kom einum gangnamanninum í hug, að lauma honum sömu mynt, og setti matartösku hans undir bununa. Þegar hann kom inn aftur og sá verksummerkin, þá reiddist hann ofsalega, en gat þó ekkert að gert, því að engum kom til hugar að segja honum, hver hefði látið töskuna undir bununa. Eftir þetta henti hann öllum sínum góða og mikla mat og svelti þangað til hann kom heim í Grímsstaði aftur.
Bergþór þessi bjó nokkur ár að Giljum á Jökuldal. Líklega hefur það verið áður en hann var að Grímsstöðum. Þá var hann ýmizt kallaður Gilja-Glámur eða Gilja-Gaur. Á þessum árum lenti hann í leiðindamáli, sem mun hafa leitt til þess, að hann var settur í fangelsi. Á þessum árum var það nokkuð algengt, einkum á Austurlandi, að bændur slátruðu heima hjá sér nokkrum kindum og fluttu síðan kroppana á hestum í kaupstaðinn, því þá voru ekki gerðar háar kröfur með þrifnaðinn. Nú bar það við eitt haust, að Bergþór rak sláturfé sitt í kaupstað og lagði inn hjá kaupmanninum. En um nóttina stal hann sex af sínum eigin skrokkum, og lagði þá inn í annað sinn næsta morgun. Þóttist hann hafa komið með þessa kroppa að heiman frá sér. En þjófnaðurinn sannaðist á hann, svo hann fékk sinn dóm.
Um þennan atburð var kveðin eftirfarandi vísa:
Hér við sjáum Gilja-Glám,
gálga-þjófinn slunginn.
Undan slíkum aula-Sám
ætti að reyra punginn.
Aldrei hefi ég komizt að því, hver orti þessa snjöllu vísu.
Og Óvinsæll faktor:
Eins og fyrr er sagt, voru verslunarstjórarnir á Raufarhöfn flestir danskir, og þóttu ærið misjafnir viðskiptis. En þó var sá verslunarstjóri íslenzkur, sem þótti þeirra allra verstur. Sá hét Sigvaldi Salómonsen. Sem dæmi um óvinsældir hans má geta þess, að þegar Bjarni “ríki” Þorsteinsson, hreppstjóri á Raufarhöfn, skaut til bana mann nokkurn, er Sigurgeir hét, varði hann sig með því, að þetta hefði verið óviljaverk. En hins vegar þóttust allir vita það, að hann hefði ætlað að skjóta factorinn, sem stóð við hliðina á Geira. Urðu út af þessu undra löng og flókin réttarhöld, sem enduðu með því, að Bjarni missti hreppstjórastöðuna og var dæmdur til hýðingar. En eftir því sem bezt verður vitað, var refsingin aldrei á hann lögð. Almenningur leit þannig á það mál, að ekki hefði verið skaði skeður, þótt selahaglið, sem var Geira að bana, hefði lent í höfði Salómonsens. Svo hróplega óvinsæll var hann.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]