Erum flutt útá Strönd, í bleikara hús í hallanum milli fjalls og hafs, milli fjalla, það heitir eftir stórborg. Þessi gul-stráði græni flati útí sjó, er eina jafnsléttan hér í kring. Fjöllin rísa þúsund metra uppí háaloft. Kvíslaður foss niðar nætur fyrir aftan húsið; órækt iðar af kvikindisskap.
Myndin er síðan í morgun af reykpallinum. Á kvöldin leka inn trillur með fisk handa öllum nema okkur og óðmjúkir spíttbátar bulla sjó, hring eftir hring, en stærri skipin halda sig utar, eru líka fá. Þennnan gull-kláf hef ég aldrei séð. – Um daginn barði hnúfubakur sjó og gaus, ég sá hann með gleraugunum. Kríuger elti hann. Þá sá ég loks það sem ég hafði glápt eftir. – Af reykpallinum hef ég lesið hlíðarnar hætta hvítu, taka lit, mælt fingur vð björg, kíkt undir þokubakka.
Lagið að neðan heyrði ég í útvarpinu og hef hugsað um það stöku sinnum, – nú með netinu tók ég það upp. Öldur rísa. Mér finnst einsog lagið sé erlent, en kem ekki fyrir mig. Hún, gamla þulan, sagði að það væri fjörutíu ára. Hér er allt mest stillt. En ég veit þær rísa. Hljómsveitin Gautar frá Siglufirði. (Þangað hef ég aldrei komið. – Þar þjónaði stúlkan sóttkvíddum sjóurum í spænsku veikinni 1918: “Það var mikið blessuð sending, þessi stúlka.” Staðurinn er undir dulnefni, Sigluvík, en sagt réttar frá annarstaðar, þessu sleppt þó – annar bragur, Einkennileg ferðasaga.)
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]