"Enn í undirheimum. Hvar og á stundum getur heyrst hlátur hlýrrar gleði og blæmjúkir söngvar innileikans ómað. Einstök sólskinsaugnablik yfir sameiginlegum feng, sem kostað hefir hálfs dags erfiði, áþján og angist að sfla sér og eignast, – en aðeins andartak að eyða, sem hverfur svo hratt, að maður verður að njóta þess áður en maður eignast það. Og undarlegir, rósrauðir og víðfleygir víndraumar geta vafist um hjörtu og hugi í einum hóp og hafið hann ofar öllum veruleik og öllu myrkri í eining og samsýn svo djúpri og sannri, sem aðeins hið eilífðarættaða eitt ber með sér, öll fegurð, öll gleði, öll samskynjan. Og slík augnablik eiga undirheimar. – Slík augnablik geta skapast í gleðisnauðasta, syndugasta og sárpíndasta umhverfi jarðarinnar. Og:
“Þá drukkum við hatrið og dauðann í sátt,
þá daga stóð eilífðin kyr.
Frá vegleysum steig okkar hugur svo hátt,
að himinsins opnuðust dyr.”
Dýrðleg augnablik, sem hverfa hratt sem leiftursýn, – hverfa undan hurðarskell, skammaryrði eða hásum hlátri frá næsta borði, – hverfa og skilja eftir hinn skuggaþunga dag, dimmri og dauðkaldari, því hin djúpa þrá hefir döggvað augun.
Og í þessum heimum deyja gömul ár og ný ár fæðast. En þar varðar slíkt ekkert. Þar er morgun hins nýja árs gleymdur áður en kvöld hans er komið. Þar hlusta menn ekki eftir skóhljóði tímans, né telja hann í krónólogiskum röðum og tákna niður í tímabil. Þar er tíminn aðeins talinn í ljósi og myrkri, í kulda og hlýju, í kvíða og róun, í kvölum og deyfing. Það er tímaskiftingin meðal hinna lifandi dauðu. – –
Ég fótbrotnaði, – tvöfalt brot á sama fæti og sem klofnað hafði, knúsast og sprungið fyr norður í hafi, – brotnar nú við hné og ökla. Furðuleg fjandans löpp – álagaskánki, .... en var það í janúar, febrúar, marts, – man nokkur það? Nei, – hverju skiftir það? – En það var kolsvart kvöld, og nístingsgaddur og alt ómögulegt og vitlaust, – svoleiðis var tíminn, þegar löppin þurfti að bæta gráu ofan á svart. – Það var svoleiðis mánuður, svoleiðis dagur, – það var sá tími. Og við þar höfum tímatal veruleikans, – hina raunverulegu tímaskiftingu, því hvað er tíminn nema okkar eigin viðhorf, til þess sem snertir okkur á einhvern hátt, sýnilega eða ósýnilega ....
En ég fótbrotnaði. Og lá á Landsspítalanum til vors. Haltraði við staf fram á haust. Nokkur drift í bæklingabransanum yfir sumarið; – fáeinir skottúrar upp í yfirborðið – og aðeins örskamma stund; – krumla djúpsins hélt sínu jötuntaki og í þeim greipum þýðir ekki að sprikla. – Og kanski langar mann ekkert til þess. Því hvert á að fara, ef menn flýja úr Helvíti, og útskúfaðir úr Himnaríki áður, – enda eilífðarlangt þangað og óratandi – engir vegir og enginn kjaftur á ferð svo neðarlega! – Já, – hvern fjandann ætti maður sosem að fara? – Og svo alt þar á milli, – alt milli þar og hér, bara andskotans hvítagaddur – endalaus auðn og ís! –
“Hvern djöfulinn sjálfan ætti maður sosem að fara?”
Nei, – hún kremur mann þó ekki sundur í kvölum, nema annað veifið, krumlu skömmin!
Margvísleg leiðindi steðjuðu yfir af eigin völdum. – Hringekja sjálfseyðingarinnar æddi áfram í sívaxandi tryllingi; – þyrlaði umhverfis sig soraskuggum daganna og svartamyrki nóttanna. –
En jafnvel í hringekju Helvítis getur eitthvað bilað og heila spilverkið snarstoppar. – Hvað bilaði? – Hvers vegna? – Hvað? – Hvernig?
Hver getur svarað því? – En viðhorfin breytast, – eitthvað breytist! Og einn daginn röltir maður ofan í Gúttó og gengur í stúku. – “Fram, haliljúa, – fram í stríð!”
Og svo koma friðsæl kvöld. Hlýleg og brosblíð, – kanski svolítið blönduð blíðufalsi, – en notaleg. Kanski svolítið kjánaleg, en ósköp þægilega hjartanleg í sínum huggulegheitum. – Og hátíðleikinn puntar upp á þessar frómu sálir, svo þær komast furðulega nálægt því besta í sjálfum sér í kvöld; – þó fjandinn megi vita, hvernig þeim liggur á morgun.
“Heilög ástbönd hér oss reyra
hjarta að hjarta, hönd við hönd.”
“Dróttsetar! Leiðið bróðir Steindór Sigurðsson til sætis! – Amen!”
Það koma árslok á Íslandi einhverntíma þó nokkru þar á eftir."
Menn og kynni, 196-8
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]