IV.
Ég þráði að finna yl í auga og svip,
þá anganrós, sem félli á liðin kynni.
En kveðjan þín var eins og ískalt grip
um allt það bezta er fannst í sálu minni.
Ég þráði ákaft viðkvæmt vinarmál,
þú vissir bezt hve mjög var þrotinn styrkur.
Þér var opin öll mín veika sál –
en eina svarið þitt var broslaust myrkur.
Ég bið þig ekki vægðar, vina kær?
Hver væntir neins frá týndum augnablikum?
Hvers virði er bónda grund, sem ekki grær?
Hvað gefur ljóð úr tómum þankastrikum?
V.
Þegar allt var annað glatað
átti ég þig í huga mínum.
Ljósið eina á löngum nóttum,
lítið bros á vörum þínum.
Bráðum fer ég, – býst þá ei við
básúnandi englaflokkum.
Veit ég að mín hinzta hugsun
hjúfrar sig í gullnum lokkum.
XIII.
Í nótt bað ég svefninn að síga
sólmjúkt á hvarminn þinn,
og víðblámann hjá þér að vaka,
vorhvíti engillinn minn.
XIV.
Ég þakka þér sérhverja sólglaða stund,
þú varst söngvarans dægurlag snoturt og létt.
Þú varst leikfang mín hjarta einn fagnaðarfund,
en það funar hvert sprek sem á glæður er sett.
Ein sorg frá í gær sér ei daginn í dag,
hver draumur skal gleymast og blikna hvert strá.
Og nýr skal hver óður og nýtt skal hvert lag.
Og ný skulu vín svala bikarsins þrá.
Dulítið úrval úr ljóðaflokk Steindórs, Mansöngvar og minningar, útg. '45, til að bleka þær í netið um aldir alda.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]