Dreymdi að ég hefði fundið og keypt bók sem mig langar mikið að eignast eða lesa. Það voru tugir eintaka af henni í kassa í gamaldags krambúð eða kaffihúsi sem seldi allt annað en bækur. Hún kostaði 400 krónur og ég valdi mér bók eða tók og borgaði með korti. Einhver tók við greiðslunni en staðurinn var annars næsta troðinn af ungum, fallegum stelpum sem voru listamenn (einsog stundum er hægt að segja um fólk) og þegar ég gekk út heyrði ég eina þeirra segja:
Hann á greinilega pening, borgaði með korti.
Á stéttinni stóð ég í mjög dreymdum bæ, hæðóttum með gömlum húsum, í mikilli sól. Mig dreymdi dag. Eitthvað var um að vera – börn útum allt og kannski blöðrur og bara 17. júní eða Golfranskir dagar einhverstaðar. Ég tók bókina úr plastinu, hún kom út rétt fyrir jól en hún datt strax úr bandinu, einsog límið hefði ekki tekið eða væri orðið eldgamalt. Gular límflygsur svifu í þessu 'góða' veðri í mölina.
Eða nei. Kannski var það þannig að ég opnaði bókina og hún datt strax úr bandinu og ég leit inn og las varir ljóshærðrar lista-gellu:
Hann á greinilega pening, borgaði með korti.
Samt heyrði ég það.
Gerast áskrifandi að Ummæli [Atom]