Bros hans boðaði ekki óveður og ofsa heldur stillur og friðsæld. Það var ekki heldur neinn asi á honum í óðaönn hversdags. Hann vann verk sín í hljóði eins og íhugulla og vökulla manna er háttur. Mér er spurn, hvort það sé fyrir guðlega forsjón, að broshýrir menn og glaðlegir veljist hér á landi til veðurfræðistarfa, m.a. til að gera okkur sátt við óblíða náttúru og bæta okkur þannig upp þá birtu og yl, sem við norðurhjaramenn fáum ekki að njóta í jafnríkum mæli og aðrar þjóðir.
Enda þótt Jónas hafi verið glöggur veðurfræðingur og spávís, mun hann sennilega ekki hafa séð fyrir frekar en aðrir þá bliku, sem dró svo skyndilega og óafturkallanlega fyrir sólu hans. Slík veðrabrigði gerast með leifturhraða snjóflóða – undanboðalaust.
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]