Hver er að þræða villigötur auðnanna inní tún svefnrofa minna?

mánudagur, júlí 05, 2010

 

Sit hérna á skrifborðinu sem ég var að renna loks með klút af ösku margra mánaða, kaffi og bjórslettur. Drullu regndropa sem laumast inn og eyðileggja kili fornra bóka og nokkur eintök af Íslendingaþáttum Tímans. Bækurnar og miðarnir eru á stólnum og hraukum á gólfinu – losaði flesta hinna hauganna í hilluna með lagni og eitthvað niður, annað í kassa og kom þeim loks betur fyrir. (Það er bara pláss fyrir eina hillu hér í súðinni, súldinni, mekkinum og öskufallinu, annars hefði ég að sjálfsögðu leyst þetta heimska vandamál með fleiri hillum.)

Mikið er sumt mikið drasl.

Fann illa rykaða Verve plötu sem ég hlustaði svo mikið á í september. Dustaði af henni. Eitt spinn og svo í geymslu. Reyni það amk; hinar eru þó komnar niður.

Fann pípuna og pappír. Mynd og póstkort. Kaffi og epli. Reimar og hníf.

Miða sem ég skrifaði á fyrir löngu, mislæsilega. ("Það er skrifað, sem skrifað er, og einhver hlýtur að geta lesið úr því...") Td þetta, sem ég stimplaði held ég inn:

2. febrúar

Sérlega skemmtan í kveld og stuð.

Seinna segja með orða eld – skuð.

Sandkökuhjörtu á sandkassabrík,

sannlega sendi úr Reykjavík.

Lélegt. En hugmynd. Mesta lagi Ha?-verð. Minnir mig.

En rykrotturnar eru kvaddar og diskar færðir niður, hæ, nýjar rykrottur, nýir diskar.

Hinar eldri voru komnar á tíma – þær nýrri verða sjálfsagt frambærilegar.


Stundum er ágætt að gera það sem verður að gera,

hefði betur athugað það oftar,

vetur í sumarbústað.



Ed.

Hér er það, lagið sem bakkaði yfir mig, ástæðan fyrir því að ég gróf hana upp á sínum tíma, ástæðan fyrir því að ég fel hana núna, þegar ég hef hlustað nokkrum sinnum í röð. Velvet Morning. Held því frá mér.


Ummæli: Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]





<< Heim

Söfn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]