og sama sé hvernig hluturinn er fenginn? Stundum er eignarhaldið lögin öll. Hvað eru sinar og sálir ánauðugra Rússa og þrælanna í Suðurríkjunum annað en fastir hvalir, þar sem eignarhaldið er lögin öll? Hvað er síðasti skammtur fátæku ekkjunnar annað og meira ágjörnum veitingamanni en fastur hvalur? Hvað er marmarahöll óafhjúpaða óþokkans sem hefur dyraskiltið að veifu annað en fastur hvalur? Og þegar veðlánamangarinn Mordecai heimtar okurvexti af vesalings ræflinum sem varð að taka lánið til að bjarga fjölskyldu sinni frá hungurdauða, hvað eru þessir okurvextir sem féfletta lántakandann annað en fastur hvalur? Hvað eru þau 100 þúsund sterlingspund sem erkibiskupinn Sálarheill þykist eiga en eru tekin af brauðsneiðum og ostbitum hundrað þúsund útslitinna daglaunamanna (sem allir voru vissir um að komast til Guðs án aðstoðar herra Sálarheils) nema fastur hvalur? Hvað eru bæirnir og þorpin sem hertoginn Aulabárður hefur erft nema fastur hvalur? Hvað er vesalings Írland hjá skutlaranum hræðilega, Jóni Bola, nema fastur hvalur? Hvað er Texas hjá postullega kesjumanninum, bróður Jónatan, nema fastur hvalur? Er ekki eignarhaldið lögin öll hjá þessum náungum? En ef hægt er að nota kenninguna um fastan hval mjög almennt, þá ætti kenningin um lausan hval að vera nothæf í enn ríkara mæli. Hún er alþjóðleg og algild.
Hvað var Ameríka árið 1492 nema laus hvalur sem Kólumbus rak í spánska herfánann til að merkja hann konungi sínum og drottningu? Hvað var Pólland zarnum? Grikkland Tyrkjanum? Indland Englandi? Hvað verður Mexíkó Bandaríkjunum áður en lýkur? Aðeins laus hvalur.
Hvað eru mannréttindi og frelsið í heiminum nema lausir hvalir? Hvað eru hugsanir allra manna og skoðanir nema lausir hvalir? Hvað eru hugsanir hugsuðanna hjá stærilátu og frökku orðhenglunum nema lausir hvalir? Hvað er jörðin öll nema laus hvalur? Hvað ert þú, lesari góður, nema hvort tveggja í senn, laus hvalur og fastur hvalur? Melville, Mobý Dick, 89. kafli, bls. 453
Mér virðist þetta sýna okkur hvílíkur fengur sterk, einstæð lífsorka er og hvílíkur hagur er af þykkum veggjum og innra rými. Maður góður, þér ber að dást að hvalnum og taka hann þér til fyrirmyndar. Þú ættir einnig að halda hitanum í ísnum. Einnig þú átt að geta lifað í þessum heimi án þess að vera af honum kominn. Vertu svalur hjá miðjarðarbaugnum og haltu blóði þínu heitu við heimsskautin. Líkt og Péturskirkjan mikla, líkt og stórhvelið, skalt þú, maður minn, halda hitastigi þínu jöfnu allan ársins hring.
Hversu auðvelt og jafnframt vonlaust er að kenna þessa ágætu hluti! Hversu fáar byggingar hafa hvelfingu Péturskirkjunnar, hversu fáar skepnur hafa stærð hvalsins!Sami, sama, 68. kafli, bls. 353
Þetta er varla nema brotabrot af því sem ég hef skrifað uppúr Hvalnum, mér finnst ég bara verða að koma þessu út, deila með ykkur; skutla ykkur. Þetta sem birtist hér er allt úr þessum frábærum niðurstöðum sem Melville dregur að loknum hverjum kafla. Kaflinn um lausan og fastan hval er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það er líka sérlega intressant hvernig Melville tekst að troða hvölum, Búr- eða öðrum stórhvelum að í hinum ýmsu óskildustu efnum sem tengjast bæði manninum og þróun, tilurð og verkum gegnum tíðina. Barasta list, ég segi það og skrifa. - Annars sýnist mér sem það sé farið að hilla undir að hvíti hvalurinn fari að mæta núna bráðlega, á 500stu blaðsíðu, ég fagna því, nóg er ég orðinn spenntur.
Þvaðrið um fastan og lausan hval tengist enskum lögum, nokkuð loðið orðalag, en engu að síður fest í lög. Þetta ætti að skiljast auðveldlega samt, hvað Melville er að meina. Helvítis flug á karlinum!
>