„Vilhjálmur skarlat er í skelinni sinni núna og hlakkar til jólanna einsog krakki, líður inní kyrrlátt rökkur þjóðlegra sagna, fornra lífshátta og skáldlegra dægra í gömlum og góðum skruddum þarsem letrið og pappírinn skiptir líka máli fyrir skapið og fíngurna einsog misjafnlega vænn borðviður í húsum og líkkistum. Úr þessum heimi talar hann til okkar. Huldufólkssögur og önnur afspreingi kynlegrar reynslu, svo sem vasaglös sem örfátækir prestar eiga og geyma næturlángt í holum undir steini nokkrum við túnbrotið í Gróugerði, og eru full af ódáinsveigum að morgni, eru þá í huganum slúngin alvarlegri dul og spurníngum. Hversu margur afneitar ekki eða skellir skollaeyrum við frumstæðum hugmyndum sem ekki samhæfast því sem honum var kennt um lögmál efnisheimsins? Það er lítil frægð. Sá hinn sami er eins vís til að afgreiða áþreifanlegasta og hroðalegasta samtíðarveruleika á svipaðan hátt, eða í mesta lagi einsog óþægilega höfuðsótt. Það er sama kalda einkaraunsæið; hann hefur farsælt einkavit fyrir sjálfum sér, býr með það í sínu einkahreiðri, flækir sér hvorki í ímyndun né veruleika, og heldur áfram að gánga hrínginn í kríngum sinn einiberjarunn og þylja sama stefið: Ég er heilbrigður, upplýstur nútímaborgari; það er ekkert að mér. Merkilegur er mannshugurinn; hann er ekki bara efni í flárátt skop einsog við vill brenna yfir skálum og innan um marga. Yfir skálum gerist náttúrulega margt. Yfir skálum hefur Vilhjálmur sagt hrikalegar sögur [...]“
Gerast áskrifandi að Færslur [Atom]